Ert þú þessi upptekna týpa?

Í okkar samfélagi er hraðinn mikill og áreitið stöðugt. Það er ekki oft sem nútímamaðurinn er einn með sjálfum sér, ef það gerist þá einhvern tímann. Hvað þá að hann njóti þagnarinnar. Lífið er eiginlega orðið þannig að einstaklingnum finnst hann alltaf þurfa að vera að gera eitthvað. Annars fær hann samviskubit. Það má ekki gera ekki neitt – slíkt er á engan hátt viðurkennt í samfélaginu.

 

En hvað er eiginlega að því að gera ekki neitt? Verður maður kannski minni maður í samfélaginu ef það fréttist að maður eyði stundum tímanum í að gera ekki neitt? Þarf alltaf allt að vera á yfirsnúningi? Reyndar held ég að margir hugsi þannig. Eða þeir kannski gefa sér ekki einu sinni tíma til að hugsa heldur vaða bara áfram og gera eitthvað. Hver þekkir t.d. ekki týpuna sem kemur sér undan sameiginlegum verkefnum og hlutum sem þarf að gera af því hún er svo miklu uppteknari en við hin. Þessi manneskja er svo upptekin af því að það þurfi alltaf að vera að gera eitthvað og það er alveg brjálað að gera hjá henni. En bara hjá henni, ekki öðrum. Þið eigið alveg örugglega að minnsta kosti einn svona vin, eða kannski ert þú þessi vinur.

 

Flest erum við reyndar alveg afskaplega upptekin. Þannig er bara lífið í dag. En það sem gleymist hins vegar allt of oft í öllum látunum er að þetta er val. Flest höfum við, sem betur fer, val um hvernig við viljum lifa lífinu. Það er okkar að velja og hafna hvort við viljum vera svona svakalega upptekin. Vinnan tekur auðvitað sinn tíma en þess utan eru það tómstundir, ræktin, golfið, skokkið, saumaklúbbar, matarklúbbar, fundir vegna félagsmála, keyra og sækja börnin, matarboð, þrif, þvottur, bakstur, tónleikar, leikhús og ég veit ekki hvað. Og eins og þetta sé ekki nóg þá bætast samfélagsmiðlarnir við og auka enn frekar á áreiti og álag.

 

Satt best að segja þá erum við orðin hálfdofin fyrir öllum þeim hljóðum sem þessi tæki og tól í kringum okkur gefa frá sér. Algjör þögn er líklega í dag sjaldgæfari en hvítur hrafn. En svo erum við heldur aldrei ein því tækin okkar, sem eru gróin við suma, fylgja okkur hvert sem við förum. Talið er að margir kíki á snjallsímana sína á sex og hálfs mínútu fresti – það gerir um 150 sinnum á dag. Í þessu netvædda samfélagi fær heilinn aldrei frí og í raun erum við orðnir þrælar of mikils upplýsingaflæðis. Upplýsingarnar eru svo miklar að út úr flæðir og það má alls ekki missa af neinu.

 

Hættan við þetta er sú að við missum tengslin við okkur sjálf. Andlegur þroski, innsæi og sköpunargáfa stendur í stað. Til þess að þroska og virkja þessa þætti þarf heilinn tíma til að hvílast og gera nákvæmlega ekki neitt. Ekki einu sinni tala eða hlusta á tónlist. Að gefa sér tíma til að sitja í þögninni eða fara einn í göngutúr, og ekki með tónlist eða útvarp í eyrunum, eykur hæfnina til að vinna betur úr öllum þeim upplýsingum sem yfir okkur flæðir. Lífið er núna og við þurfum að læra upp á nýtt að njóta þess að vera í núinu en ekki í framtíðinni. Því framtíðin getur aldrei lofað okkur því sem nútíðin getur fært okkur nákvæmlega NÚNA!


Er engin gleði lengur á Íslandi?

Hafið þið hugsað út í það hvað hamingjan skiptir miklu máli í lífinu? Hún skiptir hreinlega ÖLLU máli. Já ég veit, ég er búin að fjalla um þetta áður í pistlum mínum og það oftar en einu sinni. En hamingjan og gleðin eru mér svo rosalega hugleikin. Sérstaklega núna þegar samfélagið hreinlega titrar af óánægju, pirringi og kergju. Og ekki segja að þið hafið ekki líka fundið fyrir því. Það er einhvern veginn eins og það sé eitthvað í loftinu.

 

Mér skilst að afgreiðslufólk í verslunum finni mikla spennu og pirring í viðskiptavinum og fólk virðist ergja sig á minnstu smámunum. Það er eins og það vanti alla gleði í íslenskt samfélag. Vissulega er ýmislegt erfitt og fjölmargir berjast í bökkum, eða bönkum eins og sagt var hér einu sinni. En við hér á landi höfum engu að síður svo margt að gleðjast yfir og án efa myndu heilu þjóðirnar vilja skipta við okkur. Ekki búum við í stríðshrjáðu landi, ekki í vatnslausu landi og hér er fólk ekki fangelsað fyrir skoðanir sínar. Ímyndið ykkur að lifa við slíkar aðstæður.

 

Þótt ég sé ekkert alltaf hoppandi kát með allt hér á landi þá veit ég samt innst inni að ég er heppin. Ég hef aldrei upplifað stríð eða ógn, ég hef aldrei þurft að vera vatnslaus og mér hefur ekki verið refsað fyrir skoðanir mínar. Landið mitt er með þeim friðsælustu í heiminum. En svo er það reyndar líka með þeim skrýtnustu í heiminum. Ég meina hvar annars staðar er annað hvort bjart allan sólarhringinn eða þá myrkur? Og hvar í heiminum ætli séu jafnmargir kórar starfandi? Eða jafnmikil virkni á samfélagsmiðlum? Já við erum svolítið spes.

 

Það erum við, þessi sérstaka þjóð, sem byggjum landið. Og gleymum því ekki að það erum við sjálf sem mótum samfélagið. Ef við ætlum öll sem eitt að vera pirruð og reið þá fer það eins og eldur í sinu um samfélagið. Því alveg eins og gleðin smitar út frá sér þá getur pirringur og reiði svo sannarlega líka verið smitandi.

 

Mér þykir vænt um land mitt og þjóð og ég vil landinu mínu aðeins það besta. Ég er búin að prófa að búa erlendis og líkaði það afar vel en það er samt alltaf þessi íslenska taug sem togar í mann. Já römm er sú taug! Samt verð ég að viðurkenna að það er farið að strekkjast nokkuð mikið á henni. Mér finnst nefnilega ekki gott að búa í samfélagi þar sem hver höndin er upp á móti annarri og öfund, dómharka, pirringur og reiði eru ríkjandi.

 

Ég á mér þá ósk að íslenska þjóðin nái að sjá til sólar og sjá gleðina í því smáa. Því þegar upp er staðið eru það einmitt litlu hlutirnir, þessir sem við tökum sem sjálfsögðum hlut, sem skipta okkur mestu máli í lífinu. Þessir smáu þættir í lífi okkar sem við veitum yfirleitt ekki athygli en eiga samt svo stóran part í því að gera okkur ánægð, vekja upp bros og hækka hamingjustuðulinn. Nú er lag að veita þessum litlu hlutum athygli. Lífið er allt of stutt til að eyða því í pirring og leiðindi, eða eins og einhver sagði „taktu lífið ekki of alvarlega, þú kemst hvort sem er ekki lifandi frá því“.

 

Elsku landar, verum góð hvort við annað og ég segi nú bara eins og hin jákvæða og stórskemmtilega Sigga Kling; „ást og friður“.


Ég er sko ekki á breytingaskeiðinu!

Íslenskar konur eiga í dag góða möguleika á því að ná háum aldri. Við verðum til að mynda mun eldri en formæður okkar. Ef við hugsum almennilega um okkur getum við orðið allra kerlinga elstar og skemmtilegastar. Nú á dögum er aldur frekar afstæður og er t.d. fertug kona á margan hátt ólík jafnöldru sinni fyrir 30 árum eða jafnvel tuttugu árum síðan. Í raun má segja að um tíu ára munur sé á konum sem nú eru að komast yfir miðjan aldur og kynsystrum þeirra af síðustu kynslóð. Þær sem nú eru fimmtugar eru eins og fertugar konur voru áður. Við erum sko aldeilis heppnar sem erum núna á þessum aldri.

 

En það er líka margt sem hvílir á konum í dag og þær hafa æði mörgum hlutverkum að gegna í daglegu lífi. Í öllu þessu amstri er samt mikilvægt að konur hafi tíma til að sinna sjálfum sér. Huga þarf að heilsunni og útlitinu. Og eftir fertugt er enn meira aðkallandi að gefa þessu tvennu sérstakan gaum. Á þessum aldri er því tilvalið að endurskoða lífshætti sína og undirbúa sig fyrir komandi ár. Þið munið að við ætlum að verða allra kerlinga elstar og skemmtilegastar svo það er eins gott að hugsa vel með sig.

  

Þegar konur eru komnar yfir fertugt fara einkenni breytingaskeiðs oft að gera vart við sig. Eitthvað sem allar konur hafa heyrt um en langar hins vegar ekkert sérstaklega að taka þátt í. Alla vega stöndum við ekki í biðröð og bíðum eftir þessu tímabili. Hvað þá að konur lýsi því yfir opinberlega að þær séu á breytingaskeiðinu. Með opnari umræðu hefur þeim þó fjölgað lítillega en enn vantar töluvert upp á að íslenskar konur séu fúsar að viðurkenna þetta upphátt.  

 

Við vinnslu bókar minnar, Frábær eftir fertugt, sagði mér ein konan sem ég ræddi við að hún kannaðist nú ekkert við þetta breytingaskeið. Oft átta konur sig nefnilega ekki á þessu sjálfar. Ég er sko ekkert á breytingaskeiðinu sagði konan, þótt maðurinn hennar héldi nú öðru fram. En það er einmitt gjarnan makinn sem áttar sig fyrst á því að þetta tímabil sé hafið hjá konunni. Í viðtalinu bætti konan síðan við að hún yrði nú bara reið þegar verið væri að segja við hana að hún væri komin á þetta skeið. Hún var líka alveg hörð á því að það vildi auðvitað engin fara á breytingaskeiðið og þá sérstaklega út af þessum grýluáróðri í samfélaginu þar sem talað væri illa um konur á þessu skeiði. Svo væri líka svo innprentað í okkur að þetta væri alveg hræðilegur tími.

 

Fyrir einstaka konu getur þetta vissulega verið erfitt, en kannski ekki sanngjarnt að fullyrða að þetta sé hræðilegur tími. Því eins og með önnur skeið í lífinu þá hefur þetta skeið einnig sinn sjarma. Já, það má alltaf finna eitthvað gott við allt og breytingaskeiðið er þar engin undantekning. Mikilvægt er að vera jákvæður og líta á þetta tímabil sem tækifæri. Þótt konum sem eru að ganga í gegnum breytingaskeið finnist oft eins og þær hafi glatað sjálfri sér og allt sé breytt þá er samt full ástæða til að halda gleðinni. Meðan á þessu stendur er heilmikið þroskaferli í gangi sem skilar okkur enn meiri visku og þroska. Og hver vill ekki verða fullur af visku? Á meðan, og eftir að breytingaskeiði lýkur, hefst síðan alveg nýr kafli í lífi okkar kvenna. Þá er komið að okkar seinna þroskaskeiði og fjölmargar konur hreinlega blómstra á þeim tíma. Það er því full ástæða til að hlakka til!


Strákar í sokkabuxum

Ég er strákamamma og synir mínir þrír eru mér ákaflega dýrmætir og um leið mín mestu afrek í lífinu. Sem strákamömmu finnst mér afar sárt að heyra um brottfall drengja úr skóla og enn sárar að lesa um sjálfsvíg ungra pilta. Stundum fæ ég það á tilfinninguna að strákar séu annars flokks einstaklingar í samfélaginu og þeir sitji á hakanum í kvenlægu skólakerfi. Gert er ráð fyrir að strákar séu harðir og geti þolað ýmislegt. Sem er auðvitað einn stór misskilningur. En svo er ég strákamamman auðvitað kona og vil þar af leiðandi sjá hag kvenna og stúlkna sem mestan hvarvetna – en ekki á kostnað drengja. 

 

Í íslensku samfélagi læra drengir að alvöru karlmenn gráti ekki, hræðist ekkert og þurfi ekki á öðrum að halda. Hvaða rugl er nú það? Karlmenn eru manneskjur með tilfinningar og þeir eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Af hverju mega menn ekki gráta? Og er eitthvað að því að karlar séu skíthræddir? Íslenskir karlmenn í dag eru svo sannarlega engir víkingar. Þeir eru ekkert í því að vega mann og annan. Samfélagið er stórbreytt en samt virðast viðhorf þjóðarinnar til karlmennsku ekki hafa breyst jafnmikið. Þess vegna þurfum við að endurskoða áherslur í uppeldi drengjanna okkar og hvað fyrir þeim er haft. Það er nefnilega þannig að hvað ungur nemur gamall temur. Mæður, feður, ömmur og afar þurfa að reyna að hugsa þetta upp á nýtt svo allir drengir fái notið sín.

 

Mér finnst ég alveg ótrúlega heppin að búa ein með fjórum karlmönnum. Ég kemst upp með ýmislegt sem gengi ekki ef það væru fleiri kvenmenn á heimilinu. Strákarnir mínir eru allir mjög ólíkir enda höfum við gætt þess í uppeldinu að hjálpa hverjum og einum að finna sína hillu í lífinu – alveg sama hver hún er. Það sem hentar einum hentar ekki endilega þeim næsta. Svo er líka alveg hundleiðinlegt þegar allir eru eins, og það þurfa til dæmis ekkert allir strákar að fara í fótbolta. Strákar geta líka farið í ballett, fimleika eða klassískt tónlistarnám. Eða bara hvað sem þeir vilja – alveg eins og stelpur.

 

Samt er það nú þannig að drengjum er oftast beint í eitthvað sem þykir karlmannlegt. Það er að segja karlmannlegt á íslenskan mælikvarða. Afar fáum  strákum er t.d. beint í ballett. Hér þykir ballett kvenlæg íþrótt og samfélagið elur á vissum fordómum gagnvart strákum í ballett. Ég hef heyrt að íslenskir feður hreinlega neiti að setja drengina sína í sokkabuxur. Hvers vegna og við hvað eru þeir eiginlega hræddir? Í flestum öðrum löndum Evrópu þykir flott þegar drengir komast inn í góða ballettskóla enda er samfélagið og menningin ólík okkar. Í þessum löndum stranda ballettuppfærslur skólanna ekki á drengjaleysi. Og í þessum samfélögum þykir líka alveg í lagi að karlmenn felli tár og sýni tilfinningar sínar.

 

Sama staða er uppi í klassískri tónlist. Ef drengir eru settir í tónlistarnám er það gjarnan gítar, trommur eða stór blásturshljóðfæri sem verða fyrir valinu. Bara eitthvað nógu „karlmannlegt“. Ungsveit Sinfóníuhjómsveitar Íslands, sem samanstendur af nemendum á aldrinum 14 til 25 ára, spilaði á tónleikum í Hörpu nú í byrjun október. Þar vakti athygli lítið hlutfall drengja í sveitinni og þá sérstaklega strengjahljóðfæra. Af 13 fiðluleikurum fyrstu fiðlu voru t.d. aðeins tveir  drengir. Eitthvað segir mér að það hefði ekki þótt ásættanlegt ef þetta hefði verið á hinn veginn og stúlkurnar verið tvær og allt hitt drengir. Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins velti því fyrir sér eftir tónleikana hvort klassísk spilamennska væri að verða kvennagrein og hvort kominn væri tími á kynjakvóta handa strákum. Slíkar raddir eru afar sjaldgæfar.

 

Þegar yngsti sonur okkar hóf fiðlunám kornungur spurði faðir minn mig hvort ég ætlaði virkilega að láta hann læra á þetta þetta hljóðfæri, fiðlur væru jú bara fyrir kellingar. Já, kannski rétt á íslenskan mælikvarða en frægustu fiðluleikarar heims í gegnum tíðina hafa reyndar verið karlmenn. Ég held að þessi skilgreining á karlmennsku standi okkur fyrir þrifum í svo mörgu sem við gætum gert betur. Ef við viljum breyta samfélaginu og þessu karlmennskuviðhorfi þá þurfum við að byrja á drengjunum okkar. Og það þýðir ekkert að bíða með það þar til þeir eru orðnir 10 ára því þá eru þeir þegar smitaðir af fordómum samfélagsins. Við þurfum að byrja miklu fyrr. Beinum ekki öllum drengjum í sama mótið og ætlumst svo til þess að samfélagið breytist og verði minna karlrembulegt. Leyfum strákunum okkar að vera eins ólíkir og þeir eru margir og bjóðum þeim að nálgast og prófa ólík viðfangsefni án allra fordóma. Leyfum þeim að sýna tilfinningar sínar og gráta þegar þeim líður illa. Engir tveir drengir eru eins og þeir hafa allir ólíka hæfileika, alveg eins og stúlkur. Látum þá ekki sjá og heyra fordóma gagnvart einhverju sem gæti einmitt verið þeirra hilla í lífinu og fært þeim hamingju og sjálfstraust. 


20 ástæður til að brosa

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt kvað Einar Benediktsson fyrir allmörgum árum síðan. Maður minn hvað hann hafði rétt fyrir sér. Það er hreint með ólíkindum hvað bros getur gert. Vitandi það reyni ég að fara gegnum lífið brosandi enda gerir það allt svo miklu auðveldara og skemmtilegra. Ég held að margir átti sig einfaldlega ekki á því hvað bros og hlátur getur gert mikið fyrir heilsuna og sálina. Og þá ekki bara manns eigin því bros þitt getur líka gert öðrum gott. Bros getur nefnilega verið bráðsmitandi.  

 

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst stundum vanta svolítið upp á gleðina og brosið í okkar samfélagi. Allt of margir sem vinna t.d. þjónustustörf gera það með fýlusvip. Myndi það drepa suma að brosa aðeins? Nákvæmlega út af þessu finnst mér svo notalegt að fara á kassann hjá henni Fransiscu í Bónus úti á Granda. Hún heilsar alltaf svo hlýlega og er eitt sólkinsbros. Og síðan kveður hún mig eins og við séum gamlir kunningjar. Það er ekki að spyrja að því að ég sem elska bros hitna öll að innan við þetta og geng brosandi út úr búðinni. Enda geri ég mér yfirleitt far um að komast á kassann hjá Fransiscu þar sem hún breytir alveg upplifun minni af annars óspennandi búðarferð. En ég veit líka alveg um fólk sem þolir þetta engan veginn og sneiðir hreinlega hjá hennar kassa. Hvað er að? Er svona vont að fá notalegt viðmót og hlýtt bros? Í alvöru!

 

Okkur í fjölskyldunni finnst voða gaman að hlæja saman og er oft mikið sprellað á heimilinu. En svona sprell getur greinilega farið fyrir brjóstið á sumum. Nágrannasonur hafði til dæmis einu sinni á orði við elsta son minn að við værum svo skrýtin og við værum alltaf hlæjandi. Það er nefnilega það! Ef ég telst skrýtin af því ég hef gaman af lífinu þá er það sko í fínu lagi. Ég vil svo miklu frekar vera skrýtin en fúl og leiðinleg.

 

Vísindamenn telja að brosið geri okkur gott. Meira að segja þó það nái ekki alla leið til augnanna þá skiptir það samt máli. Þótt þú gerir þér upp bros þá hefur það samt áhrif. Sumum finnst þeir reyndar ekki hafa neitt til að brosa yfir og telja allt ómögulegt í lífinu og bara í heiminum almennt. Við skulum alveg hafa það á hreinu að lífið er ekki fullkomið, enda er ekkert til í þessum heimi sem teljast má fullkomið. Auðvitað er ekkert alltaf allt frábært og margt mætti vissulega vera betra og öðruvísi. En við breytum því alveg örugglega ekki með því að vera með fýlusvip.

 

Staðreyndin er sú að einstaklingar fæðast ekki inn í þennan heim sem annað hvort broskallar eða fýlukallar. Eina sem til þarf er rétta hugarfarið og það er ekkert erfitt að ákveða að brosa meira á hverjum degi – prófaðu bara.

 

Ástæður þess að ég brosi eru fjölmargar, en hér eru tuttugu þeirra:

 

Ég brosi af því að

... ég get það

... það kostar ekki neitt

... það er svo einfalt en samt svo gott

... það er smitandi

... það lætur mér líða betur

... ég get látið öðrum líða betur

... það gerir mig hamingjusamari

... það hjálpar mér að vera jákvæð

... það styrkir ónæmiskerfið

... það losar um stress

... það heldur blóðþrýstingnum í skefjum

... það losar um endorfín í líkamanum

... lífið verður svo miklu skemmtilegra

... ég lít betur út brosandi en með fýlusvip

... það gerir mig unglegri

... ég bý í landi þar sem ríkir friður

... ég á frábæra fjölskyldu og góða vini

... það getur hjálpað til að ég lifi lengur

... lífið er of stutt til að brosa ekki

... ég fæ að lifa lífinu – svo það er eins gott að gera það lifandi!


Erum við Íslendingar letihaugar?

Meðan ég bjó erlendis í nokkur ár, og einnig eftir að ég flutti heim, fór ég að sjá ýmislegt í íslensku samfélagi með öðrum augum en ég hafði áður gert. Þegar búið er í öðru og ólíku landi verður maður nokkurs konar gestur í eigin landi þegar komið er „heim“ í heimsókn og maður skynjar hlutina á annan hátt. Á þar máltækið að glöggt sé gests augað vel við.

 

Eitt af því sem ég áttaði mig sérstaklega á er hversu risastór þáttur vinnan er hjá flestum Íslendingum. Þá á ég ekki við hversu mikilvægt það er auðvitað að hafa vinnu heldur hversu algengt það er að fólk skilgreini sjálft sig fyrst og fremst út frá starfi sínu. Og það að vera rosalega upptekinn í vinnu þykir alveg ferlega flott. Því uppteknari sem þú ert og því lengur sem þú ert í vinnunni því duglegri og flottari einstaklingur ertu. Okkur hefur verið innrætt að vinnan göfgi manninn og allt það. Þetta er afar sterkt í þjóðarsálinni og byggist á gömlum dyggðum. Vinnusemi og dugnaður hafa ætíð þótt miklir mannkostir og flestir trúa að því meira eða lengur sem þeir vinni því meiri verði afköstin. Hér er þó ekki verið að tala um einstaklinga sem þurfa að vera í 2 til 3 störfum til að ná endum saman.  

 

Eðlilegt er að halda að með lengri vinnutíma verði afköstin meiri. Það er bara rökrétt, ekki satt? Ekki aldeilis – því það er víst alveg kolrangt. Samkvæmt öllum rannsóknum og tölum um framleiðni erum við langt langt á eftir nágrannaþjóðum okkar. Við vinnum til dæmis lengri vinnuviku en flestar aðrar þjóðir í heiminum. Já þið lásuð rétt; lengur er flestar aðrar þjóðir. En öll þessi vinnar skilar sér samt engan veginn því afköstin eru svo miklu minni hjá okkur en öðrum. Það er erfitt að kyngja þessu en þetta er alveg dagsatt.  

 

Það þykir svo flott að vera alltaf í vinnunni og vera alveg rosalega upptekinn. Dyggðin er alveg að drepa okkur. Að vera „upptekinn“ sendir þau skilaboð út í samfélagið að þú sért mikilvægur og duglegur einstaklingur. Eitthvað sem er einstaklega mikils metið í okkar samfélagi. En merkilegast er samt að við trúum því algjörlega að við afköstum miklu með þessum langa tíma sem vð eyðum í vinnunni. Síðan er líka svo notalegt að geta alltaf sagst vera svo upptekinn þannig að allir átti sig örugglega á því hversu mikilvægur maður er.

 

Ef þetta er skoðað ofan í kjölinn er ekkert óeðlilegt að spyrja hvort við Íslendingar séum raunverulega ekki eins dugleg og við viljum vera láta? Erum við kannski bara letihaugar upp til hópa? Eða nýtum við sjálfan vinnutímann ekki nógu vel?  

 

Samkvæmt sérfræðingum er staðreyndin víst sú að við höldum okkur ekki jafn vel að verki og aðrar þjóðir, sem þýðir auðvitað að við nýtum tímann ekki nógu vel. Við erum því ekki jafn dugleg og við sjálf höldum. Á meðan Norðmenn vinna 1400 tíma á ári vinnum við hér á landi tæpa 1900 tíma. Engu að síður er framleiðni okkar miklu lægri en þeirra. Í vissum atvinnugreinum erum við meira að segja með næstum því 50% lægri framleiðni. Hvernig má það vera? Við sem erum svona töff og alltaf í vinnunni!

 

Rannsóknir benda til þess að á vissum tímapunkti þá skili meiri vinna minni framleiðni. Skilaboðin eru einföld; styttri vinnutími og að halda sér við efnið skila meiri afköstum. Það er ekkert skrýtið að ungt fólk flykkist til Noregs þar sem vinnudagurinn er styttri og enginn þarf að vera í þessum töffaraleik að vinna sem lengst.

 

Það er eflaust erfitt fyrir marga sem lifa fyrir vinnuna að kyngja þessu. En sú hugsun að maður öðlist lífshamingju fyrst og fremst í gegnum mikla vinnu er orðin úrelt. Við verðum að bíta í það súra epli að við erum ekkert sérstaklega dugleg – við bara höldum það af því við erum alltaf í vinnunni. Ég held reyndar að það unga fólk sem er nýkomið á vinnumarkaðinn, sem og næsta kynslóð, muni breyta þessu. Að öllum líkindum verða þau samt kölluð letingjar af þeim sem eldri eru og telja mikla vinnu vera hina mestu dyggð. Þetta unga fólk skilgreinir sig á annan hátt en eldri kynslóðir. Þau skilgreina sig meira út frá sjálfum sér og út frá tímanum utan vinnu, en ekki út frá starfinu sjálfu. Þau munu því líklega leitast við að sníða vinnuna að lífi sínu en ekki lífið að vinnunni. Alveg eins og það ætti að vera.


Töff að vera miðaldra?

Hvers vegna hljómar orðið miðaldra sem skammaryrði í eyrum margra? Það er eins og fólk skammist sín fyrir það að eldast. Líklega á þetta rætur sínar að rekja til þeirrar ungæðisdýrkunar sem hefur tröllriðið vestrænum samfélögum um þó nokkurt skeið. Sú dýrkun virðist þó eitthvað vera á undanhaldi – eða það vona ég svo sannarlega. Staðreyndin er sú að það hefur ekkert þótt neitt voðalega töff að eldast og verða miðaldra.

 

Hvort sem það þykir töff eða ekki þá finnst mér ég alla vega vera afskaplega lánsöm og töff að fá að eldast og geri mér fulla grein fyrir því að ekki eiga allir því láni að fagna. Þess vegna þakka ég fyrir hvert ár sem bætist við hjá mér. Einhverjum kann að þykja þetta væmið og klisjukennt en það verður að hafa það því ég ræð ekkert við þetta. Ástæðan er sú að maður verði eilítið meyr og væminn með aldrinum, kannski ekki allir en margir alla vega. Og það er sko bara ekkert að því. En getur reyndar verið smá pirrandi sérstaklega þegar maður fellir tár við minnsta tilefni. Já, það þarf oft ekki mikið til.

 

Orðið „miðaldra“ er alveg einstaklega gildishlaðið. Merkingin er mjög neikvæð. Enda gengur fólk ekkert um og segir „ég er miðaldra“. Held að fáum detti í hug að auglýsa það eitthvað sérstaklega. En hvenær er maður annars miðaldra? Margir sérfræðingar telja að fólk sé orðið miðaldra eftir 35 ára aldurinn og að tímabilið vari til næstum sextugs. Nú bregður einhverjum sem er skriðinn yfir þrítugt og finnst alveg fráleitt að vera talinn miðaldra. Auðvitað er þetta afar einstaklingsbundið, hér er aðeins verið að horfa á tölur. Tímarnir breytast og mennirnir með og má segja að í dag sé aldur meira hugarástand. Sextugur einstaklingur getur t.d. verið virkari og unglegri en 45 ára einstaklingur.

 

En svona til að átta sig betur á því hvað bendir til þess að maður sé orðinn  miðaldra gerði ég stuttan lista yfir það helsta. Þú þarft samt ekki að þekkja þetta allt –  fimm atriði er alveg nóg.

Hér eru 25 atriði sem benda til þess að þú sért miðaldra:

 

  1. Það er orðið erfiðara að lesa leiðbeiningar og innihaldslýsingar með vörum – líkt og stöðugt sé verið að smækka letrið.
  2. Þú horfir upp fyrir gleraugun þín. 
  3. Líkamlegir verkir og kvillar eru orðnir algengari.
  4. Þú ferð orðið mun fyrr í rúmið á kvöldin.
  5. Svefnmynstrið breytist og þú sefur ekki eins vel og áður.
  6. Hár sprettur upp á ólíklegustu stöðum líkamans, t.d. í eyrum, í andliti, á tám og  víðar.
  7. Þér finnst læknar, kennarar og lögreglumenn vera orðnir svo mikil unglömb.  
  8. Þú verður gjörsamlega heltekin/n af heilsu þinni.
  9. Kríur og stuttir lúrar eru orðnir ansi góðir vinir þínir.
  10. Það er orðið svo miklu erfiðara að halda vigtinni í skefjum – hvað þá að ætla að losna við einhver kíló.
  11. Þú hefur breyst í móður þína (eða faðir) – alla vega ertu farin að hljóma eins.
  12. Þú segir allt of oft „ha“!
  13. Útlitið er orðið stórt áhyggjuefni –  og krefst meiri vinnu.
  14. Kostnaður vegna krema- og snyrtivörukaupa hefur heldur betur hækkað.
  15. Þú þekkir ekki lengur nýjustu og vinsælustu lögin í útvarpinu.
  16. Þú þolir ekki lengur háværa staði – eða bara hávaða almennt.
  17. Á þig hafa vaxið grænir fingur og þú unir þér vel við garðvinnu.
  18. Hinir og þessir líkamshlutar eru ekki lengur á sínum stað.
  19. Þú stynur þegar þú beygir þig.
  20. Þú setur þægindi ofar stíl og flottheitum þegar þú verslar þér fatnað.
  21. Þú gleymir auðveldlega nöfnum.
  22. Þú hugsar um að panta þér ferð í siglingu með skemmtiferðaskipi.
  23. Þú týnir sí og æ bæði gleraugunum og bíllyklunum.
  24. Þú kvartar meira.
  25. Þú leggur línuskautunum og byrjar að spila golf.

Ofurkonur á ofurfæði

Við heyrum oft hugtakið ofurkona og er þá átt við konu sem virðist geta gert þetta „allt“. Með þessu „öllu“ er líklega átt við að konan eigi börn, sé á framabraut, haldi sér í ofurformi, sé ofurmamma og auðvitað frábær gestgjafi og ofurkokkur. Hún getur allt – sem sagt algjör „ofurkona“.

 

En í dag heyrum við líka æ oftar hugtakið ofurfæða. Þetta er ákaflega vinsælt hugtak og því eðlilegt að velta fyrir sér hvað sé ofurfæða og hvort slík fæða sé raunverulega til? Og verð ég til dæmis ofurkona ef ég borða ofurfæðu? Stjáni blái gúffaði í sig spínati og fékk ofurkraft svo kannski það sé málið. Og hvað með allar ofurhetjurnar úr blöðum og bíómyndum, borða þær líka svokallaða ofurfæðu? Reyndar ekki því svo virðist sem flestar þessar ofurhetjur séu á allt annarri línu en Stjáni Blái. Leðurblökumaðurinn elskar til dæmis nachos, Súperman vill helst fá nautakjötskássu, uppáhaldsmatur Wolverine eru hamborgarar og skjaldbökurnar „The Ninja Turtles“ borða helst pizzur. Skyldi þetta kannski vera flokkað sem ofurfæða?  

 

Fæðuval ofurhetjanna telst víst ekki til hollustuvarnings á meðan t.d. bláber, lax, túrmerik, möndlur, brokkolí, lárpera og margt fleira er flokkað sem ofurfæða. En hver er það sem ákveður hvað er ofurfæða? Eftir því sem ég kemst næst er enginn sem heldur utan um það. Einhvern veginn hefur þetta þróast og er hugtakið víst ansi óljóst því svo virðist vera að hver sem er geti kallað sinn varning ofurfæðu. Samkvæmt því get ég líka kallað allt það sem ég borða ofurfæðu. Markaðsmenn og framleiðendur eru snjallir og vita upp á hár hvað þeir eru að gera. Ef þeir kynna og selja vöru sína sem ofurfæðu eru meiri líkur á vinsældum, og þar af leiðandi meiri sölu. Og við neytendur erum allt of oft auðtrúa og gleypum við þessu. Skyldi engan undra – hver vill svo sem ekki vera ofurkona (eða ofurmaður) á ofurfæði?

 

Erlendir næringarfræðingar forðast þetta hugtak og vilja ekki nota það í ljósi þess hversu óskýrt og óljóst það er. Staðreyndin er sú að engar reglur eða nákvæmar leiðbeiningar eru til um það hvernig skuli skilgreina ákveðna fæðutegund sem ofurfæðu. Öllum er því frjálst að nota hugtakið eins og þeim hentar.   

 

Í upphafi var hugtakið notað til að skilgreina ólíkar fæðutegundir, héðan og þaðan úr heiminum, sem voru taldar einstaklega ríkar af ákveðnum næringarefnum. Smám saman hefur þetta hugtak þó þróast út í hálfgerða ofnotkun. Ég er nokkuð viss um að ég verði ekki ofurkona af því að neyta svokallaðs ofurfæðis og auk þess finnst mér ég ekki vita nákvæmlega hvað telst til þessa flokks og hvað ekki. Þess vegna er ég að velta því fyrir mér hvort það megi ekki bara kalla alla fæðu sem inniheldur engin aukaefni ofurfæðu. Eða hvort við ættum yfirhöfuð nokkuð að vera að nota þetta hugtak!

 

Svona matargöt eins og ég setja bragð ofar öllu og þess vegna borða ég líka stundum eins og ofurhetja. Og hamborgarar eru líka ofurfæða. Eða er það ekki annars?  


Er ég fíkill?

Það sem mátti í gær má ekki í dag og það sem átti að borða í gær er ekki ráðlagt í dag. Eitthvað sem var algjörlega nauðsynlegt fyrir heilsuna í gær er víst algjör óþarfi í dag og efni sem voru svo góð fyrir okkur í gær gera nákvæmlega ekkert fyrir okkur í dag.

 

Er það bara ég eða finnst fleirum orðið vandlifað í þessum heimi? Ég verð að viðurkenna að ég næ engan veginn að fylgja þessu öllu eftir og auk þess er ég líklega aðeins of vanaföst fyrir svona endalausar breytingar. Hvað má ég í dag og hvað má ég ekki? Hvað er gott fyrir mig og hvað ekki?

 

Fjöldi manns er reiðubúinn að svara þessu og segja mér hvað sé gott fyrir mig og hvað ekki. Stór hluti þessa fólks hamast auk þess við að selja mér, og auðvitað öllum öðrum, hugmyndir sínar, leiðir og aðferðir til þess að lifa lífinu á sem bestan hátt (að þeirra mati auðvitað). Ég játa það alveg að stundum, en bara stundum, efast ég um að ég sé fær um að ráða fram úr þessu sjálf, sérstaklega þegar þetta ágæta fólk vísar í hina og þessa rannsóknina. Undirrituð er nefnilega ansi auðkeypt fyrir alls kyns rannsóknum. Ef eitthvað er með rannsóknarstimpilinn þá kaupi ég það, eða þannig hefur það yfirleitt verið. En ég get samt sagt ykkur það að með hverjum deginum verð ég meira og meira gagnrýnin á þetta allt saman.

 

Þótt rannsóknir séu af hinu góða þá sýnist mér niðurstöður þeirra vera æði oft ólíkar. Á meðan ein rannsókn segir eitt, segir önnur allt annað. Og þegar einn sérfræðingur segir eitt heldur annar alveg þveröfugu fram. Og hverju á maður svo að trúa? Og það sem er kannski enn meira mál; hvað á maður að gera? Á ég að trúa þessarri rannsókn og þessum færa sérfræðingi eða á ég að trúa hinni rannsókninni og öðrum bráðsnjöllum sérfræðingi?

 

Í dag er svo margt talið óæskilegt og jafnvel hættulegt. Líklega finnst einhverjum ég vera að gera ansi margt rangt. Samkvæmt sumum „heilsugúrúum“ er ég t.d. fíkill. Já ég er víst fíkill af því mér finnst súkkulaði gott? Hvort sem það er rétt eða ekki  þá mun ég alla vega seint hætta að gæða mér á sætum súkkulaðimola stöku sinnum.

 

En það er ekki bara sykur sem er á bannlista í dag. Það er svo ÓTALMARGT annað. Mér finnst t.d. ósköp notalegt að sleikja sólina, en það er víst hættulegt. Reyndar eru rannsóknir þar ekki aldeilis sammála. Á meðan ein segir mér að nota ekki sólarvörn af því við þurfum á D-vítamíni að halda segja húðsjúkdómalæknar að ég verði að nota sterka sólarvörn á hverjum degi til varnar húðkrabba. Önnur rannsókn segir hins vegar að ég eigi ekki að nota sterka sólarvörn og enn önnur segir að sólarvörnin sjálf geti valdið krabbameini. Einmitt það! Og hvað?

 

Svo er það spurningin með smjör og fitu, þar eru nú ekki heldur allir sammála. Er óhollt að borða smjör og fitu eða ekki? Ég veit ekki og er reyndar alveg sama enda nota ég smjör ekki í miklum mæli og svo finnst mér fita bragðvond. En mér finnst hins vegar pasta og brauð gott og það vilja margir ekki að maður láti inn fyrir sínar varir. Segja það ekki sniðugt að borða öll þessi kolvetni og glúten. Það sem mér finnst aftur á móti afar sniðugt við þessa glútenumræðu er hversu mörgum finnst nauðsynlegt að sneiða hjá glúteni en vita samt ekki fullkomlega hvað glúten er í raun og veru. En vita samt að þeir eru með glútenóþol. Mér finnst alveg merkilegt að öll ítalska þjóðin skuli ekki vera uppblásin eins og Michelin-maðurinn af öllu þessu pasta og brauðáti.

 

En svo snýr þetta ekki eingöngu að því hvað ekki má heldur líka að því hvað er mikilvægt að gera til að detta ekki dauður niður. Ég á til að mynda að drekka volgt sítrónuvatn á hverjum degi, drekka túrmerik tvisvar á dag, grænan safa alla vega einu sinni á dag, grænt te, taka inn fiskiolíu, vítamín, kalk, borða ofurfæði, kínóagraut (sem ég veit ekki einu sinni hvað er) og auðvitað að fasta. Já og svo segir læknirinn minn mér að nauðsynlegt sé fyrir mig að borða rautt kjöt þrátt fyrir að sumir telji það ekki gott fyrir heilsuna. Svona er þetta flókið. Og hvað með glas af rauðvíni sem á að vera gott fyrir hjartað en getur hins vegar leitt til krabbameins? Það sem ég segi – þetta er hreint ekki einfalt.

 

Þess vegna hef ég ákveðið að taka bæði öllum rannsóknum, sem og frásögnum fólks, með fyrirvara því ég er löngu búin að átta mig á því að það sama hentar ekki öllum. Auk þess hefur mér alltaf leiðst fólk sem er sífellt að segja öðrum hvernig þeir eigi að lifa lífinu. Ég ætla því að hlusta á sjálfa mig og minn líkama, því ég veit best hvað hentar mér. Og þótt sumir segi að súkkulaði sé eitur fyrir líkamann þá veit ég að þessi sæti moli getur verið fóður fyrir sálina. Og hún skiptir mig miklu máli.i moli er stundum gr sagt opinbegAuk þessvað fleira sem r að þeir skjörstað og veita honum atkvæði okkar

fur sjálfur sagt opinbe


Erum við að missa af lífinu?

Ég er mikið að velta því fyrir mér, og hef minnst á það í pistlum mínum, hvort við náum að lifa í núinu og njóta augnabliksins. Reyndar er ég handviss um að fjölmargir ná því ekki. En það sem er verra er að margir átta sig ekki einu sinni á því að þeir lifa ekki í núinu þar sem þeir hafa gleymt því hvernig á að njóta augnabliksins.

 

Undanfarnar vikur hef ég dvalið í landi tækifæranna þar sem nútímatækni er hvergi meiri og frí nettenging í boði nánast hvar sem er. Það eru því allir vel tengdir svo ekki sé nú talað um hversu vel útbúnir allir eru. Maður ætti því ekki að missa af neinu – eða hvað?

 

Fyrir nokkrum dögum var ég stödd í einum af þessum stóru amerísku skemmtigörðum sem sumir í minni fjölskyldu myndu helst vilja búa í. Þar er lífið eitt stórt ævintýri og allir hamingjusamir, enda er staðurinn kynntur og auglýstur sem hamingjusamasti staður jarðar. Engar áhyggjur, bara tóm gleði og gaman. En þar eins og annars staðar þarf maður að vera vakandi fyrir því að njóta augnabliksins og vera í núinu til að meðtaka alla þessa hamingju sem manni er lofað af stjórnendum garðsins.

 

Á ferð minni um garðinn þennan dag var augljóst að margir voru uppteknir af allt öðru en að njóta augnabliksins og skapa góðar minningar. Ég þarf nú varla að taka það fram að frí nettenging er út um allan garð, svo augljóst er að maður þarf ekki að missa af neinu á meðan dvalið er í hamingjulandinu. Ekki ætla ég að neita því að það var ósköp gott að geta aðeins kíkt á netið á meðan hangið var í klukkutímaröð til að komast í sum tækin.

 

Fyrir marga var þó ekki nóg að vafra aðeins um á netinu meðan beðið var í röð. Nei, sumir voru nefnilega afar uppteknir í tækjunum líka og í þeim ferðum sem í boði eru. Í einni ferðinni, sem er bátsferð í rólegri kantinum, sátu hjón með tvö börn beint fyrir framan mig. Þótt ferðin hafi verið róleg var samt margt að sjá og njóta. Móðirin fyrir framan mig virtist þó hafa miklu meiri áhuga á því að láta alla aðra vita hvað hún væri að gera og hversu hamingjusöm hún og fjölskyldan væru í hamingjulandinu sjálfu.

 

Í gríð og erg tók hún „selfies“ af sér og eiginmanninum sem síðan voru settar beint inn á Instagram og facebook. Myndir af brosandi og auðvitað yfir sig hamingjusömum hjónum voru settar inn á samskiptamiðlana og með fylgdi texti um í hvaða tæki þau væru nákvæmlega núna. Síðan voru teknar myndir af börnunum og beint á facebook með þær líka. Nei, ég get lofað ykkur því að ég var ekki svona forvitin. Ástæðan fyrir því hversu vel ég fylgdist með þessu er sú að ég einfaldlega mátti hafa mig alla við að lenda ekki sjálf inni á þessum „selfies“. Ég hef nákvæmlega engan áhuga á því að lenda inni á slíkum myndum hjá ókunnugu fólki.

 

Þessi móðir er því miður ekkert einsdæmi. Fólk er orðið svo upptekið af því að láta alla vita hvað það er að gera öllum stundum. Myndir af mat eru til dæmis afar algengar og sumir þurfa að deila því með öðrum hvað þeir fá sér í hvert einasta skipti sem þeir fara út að borða. Matreiðslumenn og veitingastaðir eru ekki par hrifnir af þessu. Vinsæll veitingastaður í New York ákvað vegna kvartana viðskiptavina um þjónustu staðarins að skoða hvað hefði breyst á tíu árum. Ekki voru þeir með færra starfsfólk og þeir töldu sig ekki vera að bjóða verri vöru. Eftir að hafa skoðað myndbandsupptöku frá árinu 2004 og borið saman við myndbandsupptöku frá 2014 kom sannleikurinn í ljós.

 

Fyrir tíu árum síðan kom fólk inn til að borða og var síðan farið aftur út eftir rétt rúman klukkutíma. En núna hefur þessi tími lengst um 50 mínútur því það eru allir svo uppteknir á netinu í símunum sínum og mega ekkert vera að því að panta. Svo þegar maturinn kemur loksins á borðið þarf að taka myndir af honum og setja á samskiptamiðlana. Allt tekur þetta sinn tíma!  

 

Og á meðan við erum á fullu á netinu og á samskiptamiðlunum þýtur lífið hjá á ógnarhraða. Og þótt við höldum að við séum ekki að missa af neinu þá erum við sko heldur betur að því. Við erum að missa af augnablikunum sem veita okkur gleði og hamingju. Við erum að missa af núinu. Og til hvers? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband