20 ástæður til að brosa

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt kvað Einar Benediktsson fyrir allmörgum árum síðan. Maður minn hvað hann hafði rétt fyrir sér. Það er hreint með ólíkindum hvað bros getur gert. Vitandi það reyni ég að fara gegnum lífið brosandi enda gerir það allt svo miklu auðveldara og skemmtilegra. Ég held að margir átti sig einfaldlega ekki á því hvað bros og hlátur getur gert mikið fyrir heilsuna og sálina. Og þá ekki bara manns eigin því bros þitt getur líka gert öðrum gott. Bros getur nefnilega verið bráðsmitandi.  

 

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst stundum vanta svolítið upp á gleðina og brosið í okkar samfélagi. Allt of margir sem vinna t.d. þjónustustörf gera það með fýlusvip. Myndi það drepa suma að brosa aðeins? Nákvæmlega út af þessu finnst mér svo notalegt að fara á kassann hjá henni Fransiscu í Bónus úti á Granda. Hún heilsar alltaf svo hlýlega og er eitt sólkinsbros. Og síðan kveður hún mig eins og við séum gamlir kunningjar. Það er ekki að spyrja að því að ég sem elska bros hitna öll að innan við þetta og geng brosandi út úr búðinni. Enda geri ég mér yfirleitt far um að komast á kassann hjá Fransiscu þar sem hún breytir alveg upplifun minni af annars óspennandi búðarferð. En ég veit líka alveg um fólk sem þolir þetta engan veginn og sneiðir hreinlega hjá hennar kassa. Hvað er að? Er svona vont að fá notalegt viðmót og hlýtt bros? Í alvöru!

 

Okkur í fjölskyldunni finnst voða gaman að hlæja saman og er oft mikið sprellað á heimilinu. En svona sprell getur greinilega farið fyrir brjóstið á sumum. Nágrannasonur hafði til dæmis einu sinni á orði við elsta son minn að við værum svo skrýtin og við værum alltaf hlæjandi. Það er nefnilega það! Ef ég telst skrýtin af því ég hef gaman af lífinu þá er það sko í fínu lagi. Ég vil svo miklu frekar vera skrýtin en fúl og leiðinleg.

 

Vísindamenn telja að brosið geri okkur gott. Meira að segja þó það nái ekki alla leið til augnanna þá skiptir það samt máli. Þótt þú gerir þér upp bros þá hefur það samt áhrif. Sumum finnst þeir reyndar ekki hafa neitt til að brosa yfir og telja allt ómögulegt í lífinu og bara í heiminum almennt. Við skulum alveg hafa það á hreinu að lífið er ekki fullkomið, enda er ekkert til í þessum heimi sem teljast má fullkomið. Auðvitað er ekkert alltaf allt frábært og margt mætti vissulega vera betra og öðruvísi. En við breytum því alveg örugglega ekki með því að vera með fýlusvip.

 

Staðreyndin er sú að einstaklingar fæðast ekki inn í þennan heim sem annað hvort broskallar eða fýlukallar. Eina sem til þarf er rétta hugarfarið og það er ekkert erfitt að ákveða að brosa meira á hverjum degi – prófaðu bara.

 

Ástæður þess að ég brosi eru fjölmargar, en hér eru tuttugu þeirra:

 

Ég brosi af því að

... ég get það

... það kostar ekki neitt

... það er svo einfalt en samt svo gott

... það er smitandi

... það lætur mér líða betur

... ég get látið öðrum líða betur

... það gerir mig hamingjusamari

... það hjálpar mér að vera jákvæð

... það styrkir ónæmiskerfið

... það losar um stress

... það heldur blóðþrýstingnum í skefjum

... það losar um endorfín í líkamanum

... lífið verður svo miklu skemmtilegra

... ég lít betur út brosandi en með fýlusvip

... það gerir mig unglegri

... ég bý í landi þar sem ríkir friður

... ég á frábæra fjölskyldu og góða vini

... það getur hjálpað til að ég lifi lengur

... lífið er of stutt til að brosa ekki

... ég fæ að lifa lífinu – svo það er eins gott að gera það lifandi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband