Strákar í sokkabuxum

Ég er strákamamma og synir mínir þrír eru mér ákaflega dýrmætir og um leið mín mestu afrek í lífinu. Sem strákamömmu finnst mér afar sárt að heyra um brottfall drengja úr skóla og enn sárar að lesa um sjálfsvíg ungra pilta. Stundum fæ ég það á tilfinninguna að strákar séu annars flokks einstaklingar í samfélaginu og þeir sitji á hakanum í kvenlægu skólakerfi. Gert er ráð fyrir að strákar séu harðir og geti þolað ýmislegt. Sem er auðvitað einn stór misskilningur. En svo er ég strákamamman auðvitað kona og vil þar af leiðandi sjá hag kvenna og stúlkna sem mestan hvarvetna – en ekki á kostnað drengja. 

 

Í íslensku samfélagi læra drengir að alvöru karlmenn gráti ekki, hræðist ekkert og þurfi ekki á öðrum að halda. Hvaða rugl er nú það? Karlmenn eru manneskjur með tilfinningar og þeir eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Af hverju mega menn ekki gráta? Og er eitthvað að því að karlar séu skíthræddir? Íslenskir karlmenn í dag eru svo sannarlega engir víkingar. Þeir eru ekkert í því að vega mann og annan. Samfélagið er stórbreytt en samt virðast viðhorf þjóðarinnar til karlmennsku ekki hafa breyst jafnmikið. Þess vegna þurfum við að endurskoða áherslur í uppeldi drengjanna okkar og hvað fyrir þeim er haft. Það er nefnilega þannig að hvað ungur nemur gamall temur. Mæður, feður, ömmur og afar þurfa að reyna að hugsa þetta upp á nýtt svo allir drengir fái notið sín.

 

Mér finnst ég alveg ótrúlega heppin að búa ein með fjórum karlmönnum. Ég kemst upp með ýmislegt sem gengi ekki ef það væru fleiri kvenmenn á heimilinu. Strákarnir mínir eru allir mjög ólíkir enda höfum við gætt þess í uppeldinu að hjálpa hverjum og einum að finna sína hillu í lífinu – alveg sama hver hún er. Það sem hentar einum hentar ekki endilega þeim næsta. Svo er líka alveg hundleiðinlegt þegar allir eru eins, og það þurfa til dæmis ekkert allir strákar að fara í fótbolta. Strákar geta líka farið í ballett, fimleika eða klassískt tónlistarnám. Eða bara hvað sem þeir vilja – alveg eins og stelpur.

 

Samt er það nú þannig að drengjum er oftast beint í eitthvað sem þykir karlmannlegt. Það er að segja karlmannlegt á íslenskan mælikvarða. Afar fáum  strákum er t.d. beint í ballett. Hér þykir ballett kvenlæg íþrótt og samfélagið elur á vissum fordómum gagnvart strákum í ballett. Ég hef heyrt að íslenskir feður hreinlega neiti að setja drengina sína í sokkabuxur. Hvers vegna og við hvað eru þeir eiginlega hræddir? Í flestum öðrum löndum Evrópu þykir flott þegar drengir komast inn í góða ballettskóla enda er samfélagið og menningin ólík okkar. Í þessum löndum stranda ballettuppfærslur skólanna ekki á drengjaleysi. Og í þessum samfélögum þykir líka alveg í lagi að karlmenn felli tár og sýni tilfinningar sínar.

 

Sama staða er uppi í klassískri tónlist. Ef drengir eru settir í tónlistarnám er það gjarnan gítar, trommur eða stór blásturshljóðfæri sem verða fyrir valinu. Bara eitthvað nógu „karlmannlegt“. Ungsveit Sinfóníuhjómsveitar Íslands, sem samanstendur af nemendum á aldrinum 14 til 25 ára, spilaði á tónleikum í Hörpu nú í byrjun október. Þar vakti athygli lítið hlutfall drengja í sveitinni og þá sérstaklega strengjahljóðfæra. Af 13 fiðluleikurum fyrstu fiðlu voru t.d. aðeins tveir  drengir. Eitthvað segir mér að það hefði ekki þótt ásættanlegt ef þetta hefði verið á hinn veginn og stúlkurnar verið tvær og allt hitt drengir. Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins velti því fyrir sér eftir tónleikana hvort klassísk spilamennska væri að verða kvennagrein og hvort kominn væri tími á kynjakvóta handa strákum. Slíkar raddir eru afar sjaldgæfar.

 

Þegar yngsti sonur okkar hóf fiðlunám kornungur spurði faðir minn mig hvort ég ætlaði virkilega að láta hann læra á þetta þetta hljóðfæri, fiðlur væru jú bara fyrir kellingar. Já, kannski rétt á íslenskan mælikvarða en frægustu fiðluleikarar heims í gegnum tíðina hafa reyndar verið karlmenn. Ég held að þessi skilgreining á karlmennsku standi okkur fyrir þrifum í svo mörgu sem við gætum gert betur. Ef við viljum breyta samfélaginu og þessu karlmennskuviðhorfi þá þurfum við að byrja á drengjunum okkar. Og það þýðir ekkert að bíða með það þar til þeir eru orðnir 10 ára því þá eru þeir þegar smitaðir af fordómum samfélagsins. Við þurfum að byrja miklu fyrr. Beinum ekki öllum drengjum í sama mótið og ætlumst svo til þess að samfélagið breytist og verði minna karlrembulegt. Leyfum strákunum okkar að vera eins ólíkir og þeir eru margir og bjóðum þeim að nálgast og prófa ólík viðfangsefni án allra fordóma. Leyfum þeim að sýna tilfinningar sínar og gráta þegar þeim líður illa. Engir tveir drengir eru eins og þeir hafa allir ólíka hæfileika, alveg eins og stúlkur. Látum þá ekki sjá og heyra fordóma gagnvart einhverju sem gæti einmitt verið þeirra hilla í lífinu og fært þeim hamingju og sjálfstraust. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband