Ekkert sjálfsagt að eiga góða vini

Eitt af því sem er svo dýrmætt í þessu lífi eru góðir vinir. En það er samt ekkert sjálfsagt að eiga góða vini og því ætti maður aldrei að taka þá sem sjálfsögðum hlut. Það felst ekki heldur nein heppni í því að eiga góða vini. Því flest veljum við sjálf þá sem við viljum hafa í kringum okkur. Góður vinur getur ýmsu breytt enda segir í góðum dægurlagatexta; „traustur vinur getur gert kraftaverk“. Ég held að það séu svo sannarlega orð að sönnu.

 

Vinir spila stórt hlutverk í lífi okkar. Þess vegna er svo ómetanlegt að hafa góðan kjarna stuðningsríkra vina í kringum sig. Þeir sem maður velur að hafa sem næst sér hafa óneitanlega áhrif á hvers konar manneskja maður er og hvernig maður mótast og þróast. Á sama hátt á maður sjálfur þátt í þeirra mótun. Mikilvægt er að umvefja sig fólki sem hefur jákvæð áhrif á mann, sem maður getur treyst og umfram allt fólki sem sýnir manni stuðning.

 

Með tímanum lærir maður líka hverjir eru vinir manns og með hverjum manni finnst gott að vera. Sumir hafa einfaldlega betri áhrif á mann en aðrir. Sú staða getur líka auðveldlega komið upp að vinir sem þú hélst að yrðu með þér til eilífðar eru farnir að hafa neikvæð áhrif á þig. Þá þarf oft að taka af skarið þótt erfitt sé. Maður lærir svo lengi sem maður lifir.

 

Í fyrrnefndum dægurlagatexta segir einnig „enginn veit fyrr en reynir á hvort vini áttu þá“. Er ekki frekar mikið til í þessu? Alla vega eru þeir ófáir sem hafa upplifað slíkt. Oft er það nefnilega þannig að þegar þú gengur í gegnum erfiðleika eða eitthvað bjátar á hjá þér þá áttarðu þig enn betur á því hverjir eru raunverulegir vinir þínir. Á erfiðum stundum eru það einmitt þessir vinir sem standa með þér og hjálpa þér að rísa upp aftur. Talið er að við getum talið hina sönnu traustu vini okkar á fingrum annarar handar.

 

En munum við alltaf eftir því að þakka þessum góðu vinum okkar fyrir allt? Til að bæta úr því er hér að neðan listi með 20 atriðum sem flest okkar geta eflaust sagt við sína vini. Sumt af þessu virðist kannski lítilvægt en höfum í huga að allt er þetta síður en svo sjálfsagt.

 

Tuttugu þakkir:

Takk fyrir að vera til staðar – í gegnum súrt og sætt.

Takk fyrir að hugsa svona oft til mín.

Takk fyrir að segja mér alltaf sannleikann.

Takk fyrir að sykurhúða ekki hlutina.

Takk fyrir allar ógleymanlegu samverustundirnar og fyrir að gera þær einstakar.

Takk fyrir að hlusta alltaf á mig og ræða málin til hlítar.

Takk fyrir nærgætnina og að nota hlý orð í minn garð.

Takk fyrir að samgleðjast mér alltaf.

Takk fyrir að mæta mér á miðri leið.

Takk fyrir alla gullhamrana.

Takk fyrir að gefa þér tíma fyrir mig.

Takk fyrir að vita og skynja þegar eitthvað bjátar á hjá mér.

Takk fyrir að leggja þig fram við að skilja mig í stað þess að dæma mig.

Takk fyrir að takast á við vandamálin með mér.

Takk fyrir alla smáu hlutina sem þú gerir og skipta mig svo miklu máli.

Takk fyrir að taka mér eins og ég er.

Takk fyrir að vilja eyða tíma með mér og ekki síst fyrir að hafa gaman af því.

Takk fyrir að hafa trú á mér.

Takk fyrir að þykja virkilega vænt um mig.

Takk fyrir að vera þú – sem er ansi hreint mikilvægt.


Að lifa í ótta

Að reyna að vera einhver annar en maður raunverulega er gerir lífið oftast mun erfiðara en það þarf að vera. Og að rembast við að vera fullkominn gerir þetta allt saman skrilljón sinnum erfiðara. Það er allt of flókið líf að reyna sífellt að vera einhver annar. Slíkt krefst bæði orku og tíma. Tíma sem hægt væri að nota í eitthvað annað og uppbyggilegra.

 

Þessa eilífa leit að fullkomnun er vonlaus og veldur engu nema innri baráttu. Þótt við segjum stundum að hitt og þetta sé alveg fullkomið þá miðast það yfirleitt við ákveðnar hugmyndir sem við höfum um vissa hluti. Engin manneskja er til dæmis fullkomin – sem þýðir að þú ert alveg jafn ófullkominn og næsti maður. Að eltast stöðugt við að vera fullkominn einstaklingur er því glötuð barátta. Með því að lifa þannig lifir maður lífinu í ótta. Ótta við hvað öðrum finnst um þig. Ótta við að vera dæmdur. Ótta við að vera hafnað. Ótta við hvað þér finnst um sjálfan þig. Og óttanum að vera ekki nóg.

 

Ef við erum ekki fullkomlega við sjálf og ef við lifum ekki í núinu þá missum við af því besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Svo af hverju ætti einhver að lifa lífinu í sjálfsköpuðum ótta þegar það er svo miklu einfaldara að vera bara maður sjálfur. Þannig er maður líka hamingjusamari og sáttari. Að vera maður sjálfur og vita að hamingjan kemur að innan en ekki vegna viðurkenningar annarra er góð tilfinning. En það krefst þess að maður hætti að hugsa sífellt um hvað öðrum finnst. Er líka ekki betra að vera hundrað prósent maður sjálfur heldur en einhver sem þú telur að aðrir vilji að þú sért?

 

Þótt mörgum finnist rússíbanaferðir hin besta skemmtun þá er afar þreytandi að fara í gegnum lífið í stöðugri rússíbanareið. Upp og niður, niður og upp ... en nákvæmlega þannig er það þegar maður lætur líf sitt stjórnast af því hvað öðrum finnst. Þess vegna eiga þeir sem alltaf eru þeir sjálfir auðveldara með að höndla sjálft lífið og hverfulleika þess. Það er bara svo miklu betra og auðveldara að vera maður sjálfur – enda hver annar ætti maður svo sem að vera?


Skotleyfi á netinu

Ef hún Sigga Kling, sem ég held mikið upp á, hefði spáð því fyrir mér að í janúar 2015 yrði ég fyrir einelti á netinu hefði ég haldið að nú væri hún alveg búin að missa það. Engu að síður er það nákvæmlega það sem gerðist. Eins mikið og orð geta sært er samt langverst að upplifa hvað fólki er alveg sama og hversu eðlilegt því þykir að dæma aðra og rakka ókunnuga niður á netinu. Og ekki má gleyma að þessi orð koma alltaf til með að vera þarna öllum sýnileg.

 

Á fimmtíu árum hefur ýmislegt á daga manns drifið en aldrei áður hef ég þó upplifað það að vera gjörsamlega étin svona á opinberum vettvangi. Og mikið rosalega er það sárt. Alveg hrikalega! Það sker í hjartað og maður verður algjörlega varnarlaus. Blóðþrýstingurinn nær sögulegum hæðum, tárin renna og hendur skjálfa. Mest langaði mig að fara að sofa og ekki vakna aftur fyrr en eftir tvær vikur eða svo – en auðvitað gat ég ekkert heldur sofið. Ég fór að hugsa að ef ég fullorðin lífsreynd konan tæki þetta svona nærri mér hvernig ætli blessuðum börnunum og óhörðnuðum unglingunum líði þá sem lenda í svona.

 

Fullorðið fólk hneykslast og skammast yfir þessum grimmu krökkum sem níðast á öðrum á netinu. Og tuðar svo lifandis ósköp yfir ungdómnum í dag. Ekki hvarflar þó að fólki að líta í eigin barm. Ekki eitt stundarkorn. Nei, fullorðna fólkið telur sér trú um að það geri ekki svona eða þá að það eigi rétt á því haga sér svona í skjóli málfrelsis. Það eiga jú allir rétt á öllu í dag.

 

Það er líka athyglisvert að þeir sem tjáðu sig hvað mest um pistil minn, sem ég skrifaði í kaldhæðni, byrjuðu allir á því að segja að þeir gætu nú ekki orða bundist. Þvílíkt bull! Segir þetta fólk það sama við börnin sín? Bara að láta vaða á netinu ef þeim mislíkar eitthvað sem aðrir tjá sig um. Skjóta og ekki spyrja. Ekki skrýtið að einelti á netinu sé svona alvarlegt vandamál hjá börnunum okkar ef þetta eru fyrirmyndirnar. Auðvitað getur maður setið á sér þótt manni mislíki skoðanir eða tilfinningar annarra. Það er enginn sem segir að þú verðir að hleypa púkanum út og slá á lyklaborðið. Við fullorðna fólkið hljótum að geta setið á okkur. Þá kröfu gerum við á börnin okkar. Eða er það ekki annars?

 

Hvað nákvæmlega gerðist í kjölfar þessa pistils míns á mbl.is er mér alveg óskiljanlegt. En að ég skyldi halda að mér væri óhætt að tjá mig um tilfinningar mínar á kaldhæðnislegan hátt dró heldur betur dilk á eftir sér. Líklega má hér um kenna múgæsing. Þegar einn byrjar kemur skriðan á eftir og allir verða voða æstir. Þetta virðist mjög algengt hegðunarmynstur á netinu.

 

Þótt mér hafi liðið alveg ömurlega meðan stormurinn stóð sem hæst þá hef ég nú náð áttum og tekið þá ákvörðun að nettröllin sem réðust á persónu mína fái ekki að stjórna tilfinningum mínum. Vissulega mun ég samt hugsa mig um tvisvar, og eflaust þrisvar, í framtíðinni þegar ég skrifa pistla. Ekki af því ég persónulega óttist þetta fólk heldur vegna þess að mér þykir afar vænt um fjölskyldu mína og get ekki hugsað til þess að börnin mín þurfi að upplifa það að móðir þeirra sé rökkuð niður á netinu.

 

Allir þeir sem „gátu ekki orða bundist“ höfðu engan áhuga á að vita hvort eitthvað lægi að baki. Þeim var sko nákvæmlega sama. Og það á ekkert aðeins við í mínu tilfelli. Fólk virðist ekkert hugsa út í það að hvert og eitt okkar burðast með sinn farangur og öll heyjum við okkar baráttu í þessu lífi.

 

Þrátt fyrir að hafa gagnrýnt Bláa naglann fyrir smekklausa tímasetningu þá lofaði ég líka framtakið. Aldrei myndi hvarfla að mér að gera lítið úr veikindum og sjúkdómum. Aldrei! Sjálf hef ég verið tíður gestur á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og verið þar undir séreftirliti vegna frumubreytinga. Ég, eins og flestir aðrir, óttast krabbann og því kvíði ég næstu skoðun þar sem ég fæ úr skorið hvort tekist hafi að skera allar krabbameinsfrumur í burtu sem fundust fyrir hálfu ári síðan. Þess vegna vil ég biðja ykkur þarna úti að rangtúlka ekki svona orð mín og ekki ákveða fyrir mig hvernig mér eigi að líða og hvað mér á að finnast. „Réttu“ tilfinningarnar og „réttu“ skoðanirnar eru nefnilega ekki til. Ég kenni í brjósti um þá sem ekki hafa stjórn á sér við lyklaborðið en aðallega kenni ég þó í brjósti um þau ungmenni sem verða fyrir einelti og aðkasti á netinu. Því blessuð börnin hafa hvorki þroska né lífsreynslu til að hrista þetta af sér og geta setið uppi með varanlegt ör á sálinni út ævina.


Ömurlegasta afmælisgjöf ævinnar

Ekki vil ég vera vanþakklát en því miður þá ræð ég bara engan veginn við mig núna. Málið er að í síðustu viku fékk ég eina þá ömurlegustu afmælisgjöf sem ég hef á ævi minni fengið. Ég er viss um að gefandinn hafði einungis gott í huga þegar hann valdi þetta handa mér en gjöfin féll síður en svo í kramið hjá afmælisbarninu – þótt hún sé kannski gagnleg. Og til að bæta gráu ofan á svart þá get ég ekki einu sinni skipt þessu.

 

Í byrjun janúar fagnaði ég stórafmæli, því stærsta hingað til. Ég er sko heldur betur orðin fullorðin og ætti því að vera búin að læra að vera þakklát fyrir allar óskir og gjafir sem mér berast. Og ég held að ég sé það yfirleitt en sumt er einfaldlega of skrýtið eða of óheppilegt til að maður sé ánægður og þakklátur. Já sumt er aðeins til þess fallið að stuða mann og gera mann óánægðan. Nákvæmlega þannig var þessi gjöf.

 

Vinir og vandamenn hafa margir hverjir verið yndislegir og fært mér fallegar gjafir og kveðjur. Sumir lögðu sig virkilega fram um að gleðja þetta fullorðna afmælisbarn og fyrir það er ég svo sannarlega þakklát. Enda er allt það sem fær mig til að brosa vel til þess fallið að hækka hamingjustuðul minn. Ég er nefnilega nokkuð upptekin af því að halda þessum stuðli mínum háum því þannig get ég víst fagnað hverju stórafmælinu á fætur öðru. Því sannað þykir að þeir sem eru hamingjusamir lifa lengur.

 

Þegar lítill hvítur kassi merktur mér barst inn um bréfalúguna færðist bros yfir varir mínar. Á kassanum stóð stórum bláum stöfum „Til hamingju með afmælið“. Spennandi að fá svona afmælisgjöf inn um lúguna. Brosið fraus þó hratt þegar ég sá bláu stafina neðst á kassanum. Var þessi pakki virkilega til mín? Af hverju er Blái naglinn að senda mér pakka?

 

Vonbrigðin þegar ég opnaði kassann voru mikil. Þar blasti hún við mér þessi ömurlega gjöf. Sú allra allra ömurlegasta – og það eru engar ýkjur! Í kassanum var nefnilega heimapróf til að prófa fyrir ósýnilegu blóði í saur. Já og risastór nagli. Ég fékk sem sagt kúkapróf í stórafmælisgjöf og lái mér hver sem vill að vera ekki í skýjunum með það. Það tekur alltaf aðeins á að eiga stórafmæli og fara yfir á næsta tug. Ég hef t.d. verið minnt á það að ég sé komin í seinni hálfleik. En þessi afmælisgjöf hreinlega drap niður alla gleði og mér leið eins og ég hefði fengið naglann í líkkistuna mína.

 

Eins mikið og ég er þakklát fyrir svona fólk sem stendur á bak við Bláa naglann þá verð ég segja að tímasetningin hjá þeim er ömurleg. Ekki senda fólki svona pakka þegar það stendur á slíkum tímamótum! Ef ég hefði til dæmis fengið þennan pakka þremur mánuðum seinna hefði mér eflaust liðið allt öðruvísi. Þegar pakkinn datt inn um lúguna, nokkrum dögum eftir afmælisdaginn var ég nýbúin að fagna því að fá að eldast, gleðjast með vinum mínum og hafa gaman. En síðast en ekki síst hafði mér tekist nokkuð vel upp með að sættast við þessa nýju aldurstölu mína.

 

Eflaust mun ég að lokum nota þetta kúkapróf, sem á að hjálpa til við greiningu á ristilkrabbameini. En það verður sko ekki fyrr en ég verð búin að jafna mig á þessari gjöf og því að Bláa naglanum tókst algjörlega að drepa niður þá stemningu sem hafði myndast hjá mér við þessi stóru tímamót. Ég var nefnilega ansi kát og sátt með þetta allt saman áður en Naglinn datt í hús.  


Ekki nógu mjó

Eitt af því besta við það að eldast er þessi aukna viska sem maður öðlast með árunum. Smátt og smátt áttar maður sig betur á lífinu og um hvað þetta allt saman snýst. Og ef maður er nógu vakandi fyrir lífinu, og auðvitað sjálfum sér, lærir maður með tímanum að taka sjálfan sig í fullkomna sátt. Fátt í lífinu er jafngott og það.

 

Að vera sáttur við sjálfan sig og finnast maður vera nóg er ótrúlega góð tilfinning. Það er svo erfitt að burðast um með það á sálinni að finnast maður ekki vera nóg. Misjafnt er á hvaða hátt einstaklingar upplifa það að finnast þeir ekki vera nóg. Sumum finnst þeir ekki nógu mjóir eða ekki nógu fallegir, ekki nógu flottir, ekki nógu klárir, ekki nógu skemmtilegir, ekki nógu frægir, ekki nógu vinsælir, ekki nógu farsælir og bara einfaldlega ekki nóg að neinu leyti. En hvenær er maður eiginlega nóg? Staðreyndin er sú að það ræðst líklega að stærstum hluta af eigin hugsunum. Sem þýðir að efinn um að vera ekki nóg er fyrst og fremst í höfðinu á okkur sjálfum.

 

Vissulega getur samfélagið ýtt undir að fólki finnist það ekki vera nóg. Kröfurnar eru miklar og margir í eilífri leit að fullkomnun. Gleymum því samt ekki að við sjálf eigum stóran þátt í því að móta samfélagið og kröfurnar koma frá okkur. Og höfum ætíð í huga að það er nú eiginlega ekkert fullkomið í þessum heimi. Við sjálf erum t.d. langt frá því að vera fullkomin og því eins gott að sætta sig bara við það. Ég velti því líka stundum fyrir mér hvort það sé eitthvað eftirsóknarvert að vera fullkominn, hvað sem felst nú í þeirri fullkomnun. Er það ekki einmitt ófullkomleikinn og gallar okkar sem gera okkur einstök?

 

Kannski þekkir þú einhvern sem þér finnst geta allt og vera fullkominn að öllu leyti. En það er bara ekki þannig því enginn er svo fullkominn að hann geti allt. Þótt hæfileikum sé misskipt í lífinu þá getur enginn verið góður í öllu. Sumir eru samt snjallir í því að láta aðra halda að þeir geti allt. Staðreyndin er þó sú að enginn getur allt en allir geta eitthvað – mér finnst þessi fullyrðing svo mikil snilld! Það er því algjör óþarfi að fyllast vanmætti eða öfund yfir getu einhvers. Svo ef þér finnst þú vera hálfgerður gallagripur og engan veginn nóg þá skaltu láta af þeim hugsunum. Það eina sem slíkar hugsanir gera er að draga úr þér allan mátt til að gera eitthvað sem þú getur.

 

Ekki heldur gleyma því að gallar þínir geta líka verið þínir stærstu kostir. Það er oft ansi fín lína þarna á milli. Enginn ætti að þurfa að efast um að vera ekki nóg. En það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að bæta sig. Bara ekki gera óraunhæfar kröfur til þín og annarra, og umfram allt ekki festast í neikvæðum hugsunum. Þú ert nefnilega alveg nóg – eins og þú ert!


Ekki alltaf í vinningsliðinu

Það er komið að áramótum. Aftur! Enn eitt árið liðið undir lok. Ég ætla alveg að viðurkenna það að ég er ekkert ein af þeim sem missi mig úr spenningi yfir áramótunum. Ætli því sé ekki frekar öfugt farið. Því þótt mér finnist nýtt upphaf alltaf spennandi þá eru aðrir hlutir í kringum áramót sem mér leiðast. Fyrst og fremst eru það öll þessi áramótaheit. Hvað er eiginlega málið með þau? Og hver í ósköpunum fann upp á þessari vitleysu?

 

Líklega er það nokkuð augljóst að ég strengi ekki áramótaheit. Aldrei. Þau virka ekki fyrir mig. Mér finnst svo miklu betra að taka þetta í smærri skrefum og setja mér minni markmið árið út í gegn. Bara ekki að heita einhverju um áramótin sjálf og svekkja mig svo á því seinna á árinu að hafa ekki staðið við heitið. Því að heita einhverju og að setja sér markmið er alls ekki það sama.

 

Um áramót lítum við gjarnan til baka yfir farinn veg. Hvert ár ber með sér sigra og ósigra – já maður er víst ekki alltaf í vinningsliðinu. En það er líka gott því án ósigranna væru sigrarnir ekki jafn sætir. Það er ósköp eðlilegt að horfa aðeins til baka á þessum tíma árs en mikilvægt er samt að festast ekki í því að horfa stanslaust í baksýnisspegilinn. Auðvitað gengur ekki alltaf allt upp hjá manni og flestir ef ekki allir verða fyrir vonbrigðum með eitthvað á hverju ári. Erfiðleikar banka upp á, dauðsföll, svik, mistök og fleira í þeim dúr gera lífið erfiðara. Þótt allt þetta taki á skiptir svo miklu máli að horfa fram á veginn og að hætta að upplifa það liðna aftur og aftur. Við upphaf nýs árs er því tilvalið að leggja allt slíkt til hliðar og horfa til framtíðar.

 

Með því að einblína á það liðna eitrum við framtíðina. Þeir sem festast í því taka áhættuna á að láta biturleikann ná tökum á sér. Er það ekki annars alveg morgunljóst að það er ekkert sem við getum gert til að breyta fortíðinni? Hins vegar getum við haft eitthvað með framtíðina að segja. Í stað þess að horfa aðeins á það sem ekki gekk upp á liðnu ári er skynsamlegt að sleppa tökunum og hrista vonbrigðin af sér. Þá er líka mikilvægt að fyrirgefa, þótt ekki sé nema fyrir eigin sálarheill svo hægt sé að horfa fram á við.

 

Hjá mér er þakklæti efst í huga við þessi áramót – þakklæti fyrir að fá að vera þáttakandi í lífinu. Að fá að taka þátt í öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða eru nefnilega algjör forréttindi. Auðvitað veit ég ekkert frekar en aðrir hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir mig á því herrans ári 2015. Reyndar veit ég að ég mun ekki burðast með marga poka af eftirsjá, vonbrigðum og biturleika inn í nýja árið. Og ég veit líka að ég fæ að fagna nýjum áratug strax í byrjun árs og það er sko hreint ekki svo lítið.

 

Gleðilegt nýtt ár elsku landar mínir og megi nýja árið færa íslensku þjóðinni hamingju, gæfu og gleði.

Vertu velkomið 2015.


Hjartað stækkar um þrjú númer

Alveg er það merkilegt hvað manni finnst sumt ómissandi fyrir jól og hátíðir. Það getur verið ákveðinn matur, skraut, lykt, tónlist, athöfn og þar fram eftir götunum. Hjá mér var það á tímabili rödd Valdísar heitinnar Gunnarsdóttur í útvarpinu. Að heyra notalega rödd hennar, fallegar hugleiðingar og svo auðvitað öll jólalögin, sem enginn nema hún spilaði á þessum tíma, kom mér alltaf í jólaskap. Það var því erfitt þegar ég flutti erlendis í nokkur ár þar sem engin Valdís var í útvarpinu til að skapa réttu stemninguna. Þarf varla að taka það fram að þetta var fyrir þann tíma að hægt væri að hlusta á útvarpið á netinu. En ég dó ekki ráðalaus og var mamma sett í það verkefni að taka nokkra þætti upp á kassettu og senda mér út. Og jólaskapinu var bjargað með Valdísi í tækinu.

 

Mér varð einmitt hugsað til þessa, síðastliðna helgi, þegar ég las viðtal við tvítugan son Valdísar. Tárin spruttu fram hjá mér við að lesa það sem þessi ungi drengur hafði fram að færa. Mikill þroski sem hann hefur öðlast við þá dýru og erfiðu lífsreynslu að missa móður. Og þótt hann vissulega syrgi þá segist hann strax hafa tekið þá ákvörðun að lifa ekki lífinu í sorg. Í stað þess að vera bitur er hann þakklátur fyrir þann góða tíma sem þau mæðginin áttu saman. Hann minnir fólk á að vera þakklátt fyrir það sem það hefur í lífinu því hlutirnir geti auðveldlega breyst á einu augnabliki. Líkt og gerðist hjá móður hans. Afar þörf áminning því við vitum nefnilega aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Því er svo mikilvægt að vera þakklátur og ánægður með það sem maður hefur í stað þess að einblína á það sem maður hefur ekki.

 

Núna fyrir jólin þegar þjóðin keppist við að gera allt „fullkomið“ fyrir hátíðina gleymist stundum að næra hjartað. Það er vissulega dyggð að vera þakklátur eins og þessi ungi drengur hefur lært. Margir þeir sem eldri eru mættu taka hann sér til fyrirmyndar. Kvart og kvein skilar aldrei neinu og sama hversu bágt manni finnst maður eiga þá er alltaf einhver einhvers staðar sem á meira bágt en maður sjálfur. Og samt leyfir maður sér að kvarta yfir hlutum sem skipta engu máli – nákvæmlega engu máli þegar upp er staðið!

 

Jólin eru svo sannarlega tími kærleikans og margt er hægt að gera til að rækta hann. Með því að gera öðrum gott gerir maður um leið sjálfum sér gott. Það er nú bara þannig að hjartað stækkar hjá sumum á þessum árstíma. Munið þið ekki eftir honum „Grinch“ (þegar Trölli stal jólunum)? Þegar hann áttaði sig á því að jólin snerust ekki um alla þessa pakka heldur það að þakka. Og þann dag stækkaði hjarta hans um heil þrjú númer. Um þetta snúast einmitt jólin, að fá hjartað til að stækka og kærleikann til að blómstra. Kærleika má sýna á ýmsa vegu og málið er að oft þarf hreint ekki mikið til. Sumir geta gefið af sér fjárhagslega, aðrir geta gefið af tíma sínum og enn aðrir veitt andlegan stuðning. Allt skiptir þetta jafnmiklu máli.

 

Hér eru nokkur atriði sem eru vel til þess fallin að hjálpa og gleðja einhverja nú fyrir jólin – og um leið næra okkar eigið hjarta:

 

1.  Veittu eldri einstaklingum samfélagsins athygli og aðstoð við jólaundirbúninginn

2.  Brostu vingjarnlega til allra þeirra sem hlaupa um úttaugaðir fyrir jólin.

3.  Fylltu aukapoka í matvörubúðinni til að gefa inni á síðunni matargjafir á facebook.

4.  Heimsæktu ömmu, afa, langömmu, langafa, langalangömmu, langalangafa ...

5.  Sýndu öllum sjálfsagða kurteisi og velvilja.

6.  Settu pakka undir jólatréð í Smáralind.

7.  Leyfðu þeim sem er með einn (tvo eða þrjá ...) hluti að fara fram fyrir þig í röðinni í matvörubúðinni.

8.  Gefðu af tíma þínum til Mæðrastyrksnefndar, Fjölskylduhjálpar Íslands eða Hjálparstofnunar kirkjunnar – sem allar eru með matarúthlutanir fyrir jólin.

9.  Kíktu í fataskápana og athugaðu hvort þar leynist ekki eitthvað sem þú notar aldrei en einhver annar gæti vel nýtt sér.

10. Gefðu þér raunverulega tíma til að hlusta á einhvern sem þarfnast þess að tala.

11. Haltu hurðinni fyrir náungann.

12. Gefðu „séns“ í umferðinni og hleyptu öðrum bílum inn í.

13. Knúsaðu, knúsaðu og knúsaðu.

14. Gefðu einhverjum eftir bílastæðið þitt, og finndu þér annað stæði.

15. Segðu einhverjum (eða öllum) hvað þér þykir vænt um hann.

16. Gefðu blóð í Blóðbankann.

17. Heimsæktu þann sem þú veist að er einmana, eða bjóddu honum/henni heim.

18. Hrósaðu og sláðu fólki gullhamra – það verður samt að koma frá hjartanu.

19. Hlúðu að þeim sem er veikur.

20. Gefðu fjármuni til hjálparsamtaka sem styðja við þá sem minna mega sín.

21. Bakaðu smákökur og/eða köku fyrir einhvern sem er ekki fær um það.

22. Keyptu gjafakortin „Gjöf sem gefur“ hjá Hjálparstofnun Kirkjunnar.

23. Þakkaðu afgreiðslufólki, sem veitir þér góða þjónustu, fyrir með bros á vör og láttu vita að þú sért ánægð/ur með þjónustuna.

 

Með einlægri ósk um að við verðum aftur hamingjusamasta þjóð í heimi og með eitt stærsta hjarta heimsbyggðarinnar.


Nennir þú jólunum?

Ertu búin að öllu fyrir jólin? Hver hefur ekki fengið þessa spurningu? Hún heyrist nefnilega ansi oft í desember og reyndar enn oftar því sem nær dregur jólum. Þetta liggur þarna í loftinu og bergmálar í hausnum á okkur aftur og aftur. Margar konur stressast upp við þetta og finna að þær eru ekki næstum því búnar að „öllu“ og setja þá í fimmta gírinn og hamast við að reyna að klára þetta „allt“. Sem endar auðvitað bara með því að þær verða dauðþreyttar, útkeyrðar, jafnvel daprar og salta að lokum jólamatinn með tárum sínum.

 

En hvað er þetta „allt“? Og þurfum við virkilega að gera þetta „allt“. Kannski er ég bara svona vitlaus en ég er ekki alveg með á hreinu hvað þetta „allt“ er. Eða kannski er ég svona yfirmáta kærulaus. Hvort heldur sem er þá hef ég oft velt því fyrir mér hvaða „allt“ ég á að gera fyrir jólin. Er ég að missa af einhverju mikilvægu? Koma jólin ekki til mín ef ég er ekki búin að gera „allt“?

 

Gömul vinkona mín, sem er ekkert að missa sig yfir þessu „öllu“, sagðist í fyrra bara alls ekki nenna þessum jólum. Engu að síður velti hún því fyrir sér hvort hún ætti að fara í geymsluna sína og sækja eitthvað jólaskraut til að skreyta heimilið. Ekki af því hana langaði til þess heldur af því henni fannst hún þurfa þess þar sem allir aðrir væru að skreyta hátt og lágt. Jólabarnið ég átti erfitt með að skilja þetta. Hvernig er það hægt að nenna ekki jólunum? Þá getur maður alveg eins ekki nennt því að eiga afmæli eða ekki nennt sumrinu. En þegar hún lýsti því hvernig henni fyndist jólin vera eitt stórt kapphlaup þá áttaði ég mig á því hvað hún var að fara. Hennar tilfinning er sú að fólk sé fyrst og fremst að keppast við að gefa stærstu gjafirnar, kaupa ný og dýr föt á alla fjölskylduna og bruðla við matarkaup því allt þarf að vera svo fullkomið. Þetta er virkilega umhugsunarvert og afar leitt ef mörgum líður þannig. Jólin eiga ekki að snúast um þessa hluti.

 

En eru dýr gjafakaup, nýr alklæðnaður og bruðl í matarkaupum þá „allt“ sem þarf að gera fyrir jólin? Nei svo er víst alls ekki því mér skilst að það sé töluvert meira á „allt-listanum“. Það þarf til dæmis að baka alla vega nokkrar sortir af smákökum, skreyta heimilið að utan sem innan hátt og lágt, skúra út í öll horn, taka alla skápa í gegn, þrífa gardínurnar, föndra eitthvað sniðugt og flott og svo má ekki gleyma að skrifa nokkra tugi jólakorta. Er þetta þá „allt“? Reyndar ekki því æði mörgum finnst engin jól án þess að standa í konfektgerð, kæfugerð, rauðkálsgerð, laufabrauðsgerð og svo þarf að fara út í skóg og höggva sitt eigið jólatré.

 

Ég er samt ekki einu sinni viss um að þetta sé „allt“ og sumum finnst þeir eflaust þurfa að gera eitthvað enn meira svo jólin verði nú örugglega fullkomin. Ég viðurkenni það alveg fúslega að mér fallast hreinlega hendur við að lesa þennan lista. Alveg efast ég stórlega um það að ég kæmist heil út úr því að framkvæma þetta „allt“ á einum mánuði. Af hverju þarf að gera svona mikið fyrir jólin? Og getur maður treyst því að allt verði fullkomið?

 

Hvort það er heimskan í mér eða margra, margra ára reynsla af jólaundirbúningi þá finnst mér ég ekki þurfa að gera þetta „allt“. Og ég átta mig enn betur á því þegar ég les yfir þennan lista. Sem betur fer er ég líka með nokkuð háan skítastuðul, sem þýðir að ég fer sko ekkert á taugum þó ég sjái örlítið ryk eða smá skít. Það er líka hvort eð er alltaf svo mikið myrkur í jólamánuðinum að það sér enginn neitt. Þannig að það er um að gera að skrúfa bara niður í ljósunum og nota kerti og jólaljós til að gera heimilið huggulegt. Þá tekur enginn eftir neinu nema notalegri stemningu og kósíheitum. Ég lofa!

 

Ég ætla samt að viðurkenna það að vissulega geri ég eitt og annað á þessum langa lista en ég geri það allt á mínum forsendum, sem þýðir að ég geri það ef mig langar, ef ég nenni og ef ég hef tíma. Ég er löngu vaxin upp úr því að finnast allt þurfa að vera fullkomið því reynslan hefur kennt mér að það er ansi fátt í lífinu sem er fullkomið. Lífið er oftast yndislegt og gjöf í sjálfu sér, en lífið er líka fullt af óvæntum uppákomum sem geta breytt ýmsu eða jafnvel öllu.

 

Aðventan er yndislegur tími og ég veit fátt skemmtilegra en að nota hann til að vera með fjölskyldunni minni og hitta vini á tónleikum eða kaffihúsum við kertaljós. Það er svo miklu betra en að rembast við að uppfylla einhverjar kröfur samfélagsins eða tilbúnar væntingar. Ég get svo svarið það að skíturinn fer ekki neitt þó þið farið út og hittið fólk, og reynsla mín af því að halda jól erlendis hefur kennt mér að jólin koma hvort sem maður tekur íslensku leiðina á þau eða ekki. Þau koma hvort sem maður tekur skápana í gegn eða ekki. Þau koma meira að segja þó maður baki ekkert og fái sér ekki nýjan kjól. Jólin eru tími kærleikans og mér finnst stórkostlegt að sjá og finna hvað ólíklegasta fólk verður kærleiksríkt á þessum árstíma.  Njótum þess nú að vera til og eyða tíma með þeim sem okkur þykir vænt um og höldum jólin eins og okkur hentar. Það getur verið á allt annan hátt en hjá fólkinu í næsta húsi. Og ég vona svo innilega að um þessi jól gráti engin kona yfir pottunum á aðfangadag af því hún náði ekki að gera „allt“ fyrir jólin.

 

Ég veit að jólin munu koma til mín því ég er tilbúin í hjarta mínu að taka á móti þeim þó öll ytri umgjörð verði ekki fullkomin, hvað þá samkvæmt listanum góða. Bara svona eins og venjulega hjá mér – enda geri ég aldrei „allt“ fyrir jólin.


Hálfnaktar og miðaldra

Mér finnst alltaf jafn óviðeigandi þegar tónlistarmenn nota líkamann til að koma list sinni á framfæri. Ég t.d. skil ekki þá áráttu að þurfa að vera hálfnakinn á sviði að flytja tónlist? Hvað er það eiginlega? Hefur söngvarinn, eða söngkonan, kannski áhyggjur af því að sönghæfileikarnir séu ekki nægilega miklir og betra sé að dreifa athyglinni með rassaköstum og skoppandi brjóstum?

 

Ég hamast alveg við að reyna að skilja það þegar ungstirni eins og Miley Cyrus mætir hálfnakin á svið og glennir sig síðan eins og hún eigi lífið að leysa. Sem betur fer eru samt margar af þessum ungu öllu dannaðri og er t.d. Taylor Swift góð fyrirmynd í þeim efnum. Hún er alltaf flott og fullklædd og laus við allan glennugang. Þetta er stelpa sem selur tónlistina sína í bílförmum sem sýnir að stúlkur þurfa ekki að koma fram naktar til að njóta velgengni. Hvað þá fullorðnar konur sem maður myndi halda að þroskuðust með árunum og kæmu sér í fötin.

 

Maður er löngu orðinn vanur henni Madonnu. Hún hefur alltaf haft ákveðna sýniþörf og verið mikið fyrir það að ögra. En að kona sem komin er fast að sextugu, og verandi fjögurra barna móðir, skuli ekki vaxa upp úr þessari eilífðaruppreisn. Ég myndi ekki nenna því að haga mér eins í dag og þegar ég var fimmtán eða sextán ára. Samkvæmt móður minni vaknaði ég nefnilega einn daginn þegar ég var rúmlega fimmtán ára með þvílíkt „attitude“. Á ég víst að hafa umturnast í ungling í uppreisn á einni nóttu. Sem betur fer eldist maður og þroskast, og guð minn góður hvað ég er þakklát fyrir það. Ég var nú samt alltaf fullklædd og hafði enga þörf fyrir að sýna mikið hold. En auðvitað átti maður sín tískuslys sem ég hef engan áhuga á að endurtaka. Engu að síður finnst mér sumt enn töff, skemmtilegt og gott sem ég gerði og klæddist á þessum aldri. Samt færi ég aldrei aftur tilbaka. Ekki séns! Nú er ég á allt öðru stigi lífsins, eins og flestar konur á mínum aldri, og er bara ansi hreint ánægð með það. Nákvæmlega þess vegna skil ég alls ekki hana Madonnu – þessa 56 ára gömlu konu sem augljóslega nær ekki að þroskast frá uppreisninni.

 

Nú svo er það latneska dívan mín hún Jennifer Lopez. Ég er ekki viss um að það hafi nú gert henni neitt gott að vera valin fallegasta kona í heimi af People Magazine árið 2011. Síðan þá hefur hún orðið fáklæddari og fáklæddari með hverju árinu. Hún greinilega hamast við að halda í eitthvað sem ég veit ekki hvað er, alla vega held ég að þetta sé tómur misskilningur hjá henni. Það keyrði nú samt um þverbak á nýliðinni verðlaunahátíð American Music Awards þar sem hún mætti hálfnakin á sviðið og skók sig alla eins og hún væri aðalnúmerið á vinsælum súlustað. Þvílíkar glennur og kynæsandi tilburðir hjá þessari tveggja barna móður. Og svo er hún líka miðaldra. Já Jennifer Lopez er miðaldra stórglæsileg kona sem keppist við að haga sér eins og sér helmingi yngri söngkonur. Þarf þessi flotta 45 ára kona virkilega á þessu að halda? Hvernig væri að bera aðeins meiri virðingu fyrir sjálfri sér? Eða er kannski miðaldrakrísan að gera út af við þessar miðaldra stjörnur?

 

Mikið er ég glöð að vera bara svona venjuleg „Gugga“ og þurfa ekki að vera í stöðugri baráttu um athygli við mér helmingi yngri konur. Það hlýtur að vera erfitt að keppast endalaust við það að halda í æskuna og gefa sjálfri sér ekki tækifæri til þess að eldast af virðuleika og njóta þess sem hærri aldur og aukin viska hefur upp á að bjóða. Ég er alla vega afskaplega sátt við minn staði í lífinu nákvæmlega núna. Það hafa nefnilega öll skeið lífsins sinn sjarma. Svo kæra Jennifer, og allar hinar, í guðanna bænum haldið ykkur í fötunum!


Finnst vont að láta njósna um mig

Trúir þú því að líf þitt sé alfarið þitt einkamál? Og finnst þér þú kannski ná að halda öllu þínu algjörlega út af fyrir þig? Það er vissulega ósköp notalegt að trúa því og ég myndi svo mjög gjarnan vilja það. En það er bara svo fjarri sannleikanum. Sérstaklega ef þú ert virkur í netheimum þá geturðu gleymt því að svo sé. Því líf okkar, sem förum daglega á netið, er síður en svo sem lokuð bók.

 

Í mínum huga er einkalífið afar dýrmætt og ég hef nákvæmlega engan áhuga á því að láta fylgjast með mér og njósna um mig. En í dag er það ekki möguleiki. Kannski ef ég væri ekki á facebook eða myndi aldrei „gúggla“ þá gæti það gengið en það er samt mjög hæpið. Mjög, mjög hæpið. Þú kemst nefnilega hvergi undan tækninni og því að fylgst sé með þér. Út um allt eru myndavélar sem fylgjast með okkur, við borgum vörur með kreditkorti og þannig er líka fylgst með okkur. Svo eru það símarnir okkar sem flestir eru með staðsetningarbúnað, og margir halda því líka fram að með myndavélunum í fartölvunum okkar sé hægt að fylgjast með okkur. Við erum því í raun og veru hvergi óhult fyrir því að með okkur sé fylgst.

 

Ég er búin að velta þessu töluvert fyrir mér að undanförnu og ég verð að segja að þegar ég virkilega áttaði mig á því hversu mikið er fylgst með öllu sem ég geri þá varð mér hálf illt. Nýjasta fréttin um óprúttna aðila sem tókst að hakka sig inn í öryggismyndavélar á heimilum fólks út um allan heim var ekki til þess fallin að róa mig. En það sem kannski helst hefur fyllt mælinn hjá mér undanfarið er röð atvika þar sem ég hef verið að „gúggla“ eitthvað og farið svo inn á facebook stuttu seinna og viti menn; dúkka ekki upp hjá mér auglýsingar nátengdar því sem ég var að „gúggla“. Þetta hefur reyndar gerst með fleiri síður en facebook. Mér finnst þetta hrikalega óþægileg tilfinning. Og nei, ég er ekki orðin vænisjúk – þetta eru augljósar staðreyndir.

 

Oft velti ég því líka fyrir mér, þegar myndir af mér fara á netið, hvort einhver þarna úti komi kannski til með að nota þær í vafasömum tilgangi. Fyrr á þessu ári sá ég nefnilega þátt í Bandaríkjunum sem situr enn í mér. Ung og flott stúlka hafði sett þessa fínu mynd af sér á facebook-síðuna sína. Einhver óprúttinn aðili hafði síðan tekið myndina og notað hana sem sína eigin. Þessi sami aðili hafði leikið á nokkra unga karlmenn sem af fúsum og frjálsum vilja sendu þessari flottu ungu konu, að þeir héldu, fullt af peningum til að hjálpa henni í erfiðum veikindum. Hún var jú kærastan þeirra, eða svo héldu þeir allir þótt enginn þeirra hefði hitt hana og aðeins væri um netsamband að ræða. En ánægðir voru þeir með þessa kærustu sína, sem þegar upp var staðið reyndist vera töluvert eldri kona og ekkert sérstaklega flott og hugguleg.

 

Þetta er svo sannarlega langt frá því að vera eina dæmið um slíkt og öll getum við átt þetta á hættu.Þess vegna fer það fyrir brjóstið á mér þegar ungar stúlkur setja djarfar og ögrandi myndir af sér fáklæddum á netið. Þær hafa ekki hugmynd um hvar myndirnar þeirra geta endað. Og hvað gengur þessum stúlkum eiginlega til?

 

Eins mikið og ég dáist að möguleikum veraldarvefsins og nýrri tækni þá hræðist ég hvoru tveggja um leið. Vissulega auðveldar þetta okkur margt en tæknin hefur samt líka getið af sér tól sem fær okkur til að eyða tímanum í tóma vitleysu. Og þetta tól fylgist líka með okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þegar ég reyni að vera einstaklega jákvæð út í þetta allt hugsa ég um þessa hluti sem öryggistæki. Myndavélarnar sem fylgjast með okkur geta nefnilega líka komið upp um glæpamenn og ef ég myndi einhvern tímann týnast eða ef mér væri rænt þá gæti þessi sama tækni líklega hjálpað til við að finna mig út frá kreditkortafærslum, tölvunotkun og öllum þessum myndavélum. En af hverju ætti ég svo sem að týnast og hver hefði eiginlega áhuga á því að ræna mér? Ætli ég sé kannski búin að horfa á allt of mikið af sjónvarpsþáttum þar sem samsæriskenningum er haldið á lofti?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband