Ekki nógu mjó

Eitt af því besta við það að eldast er þessi aukna viska sem maður öðlast með árunum. Smátt og smátt áttar maður sig betur á lífinu og um hvað þetta allt saman snýst. Og ef maður er nógu vakandi fyrir lífinu, og auðvitað sjálfum sér, lærir maður með tímanum að taka sjálfan sig í fullkomna sátt. Fátt í lífinu er jafngott og það.

 

Að vera sáttur við sjálfan sig og finnast maður vera nóg er ótrúlega góð tilfinning. Það er svo erfitt að burðast um með það á sálinni að finnast maður ekki vera nóg. Misjafnt er á hvaða hátt einstaklingar upplifa það að finnast þeir ekki vera nóg. Sumum finnst þeir ekki nógu mjóir eða ekki nógu fallegir, ekki nógu flottir, ekki nógu klárir, ekki nógu skemmtilegir, ekki nógu frægir, ekki nógu vinsælir, ekki nógu farsælir og bara einfaldlega ekki nóg að neinu leyti. En hvenær er maður eiginlega nóg? Staðreyndin er sú að það ræðst líklega að stærstum hluta af eigin hugsunum. Sem þýðir að efinn um að vera ekki nóg er fyrst og fremst í höfðinu á okkur sjálfum.

 

Vissulega getur samfélagið ýtt undir að fólki finnist það ekki vera nóg. Kröfurnar eru miklar og margir í eilífri leit að fullkomnun. Gleymum því samt ekki að við sjálf eigum stóran þátt í því að móta samfélagið og kröfurnar koma frá okkur. Og höfum ætíð í huga að það er nú eiginlega ekkert fullkomið í þessum heimi. Við sjálf erum t.d. langt frá því að vera fullkomin og því eins gott að sætta sig bara við það. Ég velti því líka stundum fyrir mér hvort það sé eitthvað eftirsóknarvert að vera fullkominn, hvað sem felst nú í þeirri fullkomnun. Er það ekki einmitt ófullkomleikinn og gallar okkar sem gera okkur einstök?

 

Kannski þekkir þú einhvern sem þér finnst geta allt og vera fullkominn að öllu leyti. En það er bara ekki þannig því enginn er svo fullkominn að hann geti allt. Þótt hæfileikum sé misskipt í lífinu þá getur enginn verið góður í öllu. Sumir eru samt snjallir í því að láta aðra halda að þeir geti allt. Staðreyndin er þó sú að enginn getur allt en allir geta eitthvað – mér finnst þessi fullyrðing svo mikil snilld! Það er því algjör óþarfi að fyllast vanmætti eða öfund yfir getu einhvers. Svo ef þér finnst þú vera hálfgerður gallagripur og engan veginn nóg þá skaltu láta af þeim hugsunum. Það eina sem slíkar hugsanir gera er að draga úr þér allan mátt til að gera eitthvað sem þú getur.

 

Ekki heldur gleyma því að gallar þínir geta líka verið þínir stærstu kostir. Það er oft ansi fín lína þarna á milli. Enginn ætti að þurfa að efast um að vera ekki nóg. En það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að bæta sig. Bara ekki gera óraunhæfar kröfur til þín og annarra, og umfram allt ekki festast í neikvæðum hugsunum. Þú ert nefnilega alveg nóg – eins og þú ert!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband