Ert þú þessi upptekna týpa?

Í okkar samfélagi er hraðinn mikill og áreitið stöðugt. Það er ekki oft sem nútímamaðurinn er einn með sjálfum sér, ef það gerist þá einhvern tímann. Hvað þá að hann njóti þagnarinnar. Lífið er eiginlega orðið þannig að einstaklingnum finnst hann alltaf þurfa að vera að gera eitthvað. Annars fær hann samviskubit. Það má ekki gera ekki neitt – slíkt er á engan hátt viðurkennt í samfélaginu.

 

En hvað er eiginlega að því að gera ekki neitt? Verður maður kannski minni maður í samfélaginu ef það fréttist að maður eyði stundum tímanum í að gera ekki neitt? Þarf alltaf allt að vera á yfirsnúningi? Reyndar held ég að margir hugsi þannig. Eða þeir kannski gefa sér ekki einu sinni tíma til að hugsa heldur vaða bara áfram og gera eitthvað. Hver þekkir t.d. ekki týpuna sem kemur sér undan sameiginlegum verkefnum og hlutum sem þarf að gera af því hún er svo miklu uppteknari en við hin. Þessi manneskja er svo upptekin af því að það þurfi alltaf að vera að gera eitthvað og það er alveg brjálað að gera hjá henni. En bara hjá henni, ekki öðrum. Þið eigið alveg örugglega að minnsta kosti einn svona vin, eða kannski ert þú þessi vinur.

 

Flest erum við reyndar alveg afskaplega upptekin. Þannig er bara lífið í dag. En það sem gleymist hins vegar allt of oft í öllum látunum er að þetta er val. Flest höfum við, sem betur fer, val um hvernig við viljum lifa lífinu. Það er okkar að velja og hafna hvort við viljum vera svona svakalega upptekin. Vinnan tekur auðvitað sinn tíma en þess utan eru það tómstundir, ræktin, golfið, skokkið, saumaklúbbar, matarklúbbar, fundir vegna félagsmála, keyra og sækja börnin, matarboð, þrif, þvottur, bakstur, tónleikar, leikhús og ég veit ekki hvað. Og eins og þetta sé ekki nóg þá bætast samfélagsmiðlarnir við og auka enn frekar á áreiti og álag.

 

Satt best að segja þá erum við orðin hálfdofin fyrir öllum þeim hljóðum sem þessi tæki og tól í kringum okkur gefa frá sér. Algjör þögn er líklega í dag sjaldgæfari en hvítur hrafn. En svo erum við heldur aldrei ein því tækin okkar, sem eru gróin við suma, fylgja okkur hvert sem við förum. Talið er að margir kíki á snjallsímana sína á sex og hálfs mínútu fresti – það gerir um 150 sinnum á dag. Í þessu netvædda samfélagi fær heilinn aldrei frí og í raun erum við orðnir þrælar of mikils upplýsingaflæðis. Upplýsingarnar eru svo miklar að út úr flæðir og það má alls ekki missa af neinu.

 

Hættan við þetta er sú að við missum tengslin við okkur sjálf. Andlegur þroski, innsæi og sköpunargáfa stendur í stað. Til þess að þroska og virkja þessa þætti þarf heilinn tíma til að hvílast og gera nákvæmlega ekki neitt. Ekki einu sinni tala eða hlusta á tónlist. Að gefa sér tíma til að sitja í þögninni eða fara einn í göngutúr, og ekki með tónlist eða útvarp í eyrunum, eykur hæfnina til að vinna betur úr öllum þeim upplýsingum sem yfir okkur flæðir. Lífið er núna og við þurfum að læra upp á nýtt að njóta þess að vera í núinu en ekki í framtíðinni. Því framtíðin getur aldrei lofað okkur því sem nútíðin getur fært okkur nákvæmlega NÚNA!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband