Er engin gleði lengur á Íslandi?

Hafið þið hugsað út í það hvað hamingjan skiptir miklu máli í lífinu? Hún skiptir hreinlega ÖLLU máli. Já ég veit, ég er búin að fjalla um þetta áður í pistlum mínum og það oftar en einu sinni. En hamingjan og gleðin eru mér svo rosalega hugleikin. Sérstaklega núna þegar samfélagið hreinlega titrar af óánægju, pirringi og kergju. Og ekki segja að þið hafið ekki líka fundið fyrir því. Það er einhvern veginn eins og það sé eitthvað í loftinu.

 

Mér skilst að afgreiðslufólk í verslunum finni mikla spennu og pirring í viðskiptavinum og fólk virðist ergja sig á minnstu smámunum. Það er eins og það vanti alla gleði í íslenskt samfélag. Vissulega er ýmislegt erfitt og fjölmargir berjast í bökkum, eða bönkum eins og sagt var hér einu sinni. En við hér á landi höfum engu að síður svo margt að gleðjast yfir og án efa myndu heilu þjóðirnar vilja skipta við okkur. Ekki búum við í stríðshrjáðu landi, ekki í vatnslausu landi og hér er fólk ekki fangelsað fyrir skoðanir sínar. Ímyndið ykkur að lifa við slíkar aðstæður.

 

Þótt ég sé ekkert alltaf hoppandi kát með allt hér á landi þá veit ég samt innst inni að ég er heppin. Ég hef aldrei upplifað stríð eða ógn, ég hef aldrei þurft að vera vatnslaus og mér hefur ekki verið refsað fyrir skoðanir mínar. Landið mitt er með þeim friðsælustu í heiminum. En svo er það reyndar líka með þeim skrýtnustu í heiminum. Ég meina hvar annars staðar er annað hvort bjart allan sólarhringinn eða þá myrkur? Og hvar í heiminum ætli séu jafnmargir kórar starfandi? Eða jafnmikil virkni á samfélagsmiðlum? Já við erum svolítið spes.

 

Það erum við, þessi sérstaka þjóð, sem byggjum landið. Og gleymum því ekki að það erum við sjálf sem mótum samfélagið. Ef við ætlum öll sem eitt að vera pirruð og reið þá fer það eins og eldur í sinu um samfélagið. Því alveg eins og gleðin smitar út frá sér þá getur pirringur og reiði svo sannarlega líka verið smitandi.

 

Mér þykir vænt um land mitt og þjóð og ég vil landinu mínu aðeins það besta. Ég er búin að prófa að búa erlendis og líkaði það afar vel en það er samt alltaf þessi íslenska taug sem togar í mann. Já römm er sú taug! Samt verð ég að viðurkenna að það er farið að strekkjast nokkuð mikið á henni. Mér finnst nefnilega ekki gott að búa í samfélagi þar sem hver höndin er upp á móti annarri og öfund, dómharka, pirringur og reiði eru ríkjandi.

 

Ég á mér þá ósk að íslenska þjóðin nái að sjá til sólar og sjá gleðina í því smáa. Því þegar upp er staðið eru það einmitt litlu hlutirnir, þessir sem við tökum sem sjálfsögðum hlut, sem skipta okkur mestu máli í lífinu. Þessir smáu þættir í lífi okkar sem við veitum yfirleitt ekki athygli en eiga samt svo stóran part í því að gera okkur ánægð, vekja upp bros og hækka hamingjustuðulinn. Nú er lag að veita þessum litlu hlutum athygli. Lífið er allt of stutt til að eyða því í pirring og leiðindi, eða eins og einhver sagði „taktu lífið ekki of alvarlega, þú kemst hvort sem er ekki lifandi frá því“.

 

Elsku landar, verum góð hvort við annað og ég segi nú bara eins og hin jákvæða og stórskemmtilega Sigga Kling; „ást og friður“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Jóna.

Virkilega góður pistill sem ég las hér að ofan.

Skömm að svo fáir lesi þessa jákvæðni.

En ég efa ekki að við sem lásum, lásum okkur til gleði og ánægju.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.11.2014 kl. 17:37

2 Smámynd: Jóna Ósk Pétursdóttir

Kærar þakkir Ómar Geirsson.

Já þótt fáir lesi hér inni þá eru þeir mun fleiri sem lesa þetta inni á mbl.is, svo vonandi hefur jákvæðnin skilað sér víðar :-)

Jóna Ósk Pétursdóttir, 12.11.2014 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband