Það vilja ekkert allir eiga börn

Við erum svo heppin að búa við það í dag að eiga val um flesta hluti. Við höfum val um hvernig við viljum lifa lífinu, og sem betur fer velja ekki allir það sama. Ekki er þar með sagt að það sem hver og einn velur sér í lífinu sé fullkomlega samþykkt af samfélaginu. Á meðan eitt þykir alveg eðlilegt og í lagi þykir annað óeðlilegt og ekki í lagi.

 

Tökum barneignir sem dæmi; í okkar samfélagi þykir alveg eðlilegt að kona eigi barn utan hjónabands og ali það upp ein. Það þykir líka alveg í lagi að kona eigi mörg börn með nokkrum mönnum. Þær konur fá yfirleitt frið fyrir áleitnum spurningum og athugasemdum. Eflaust hefur einhver skoðun á því en fáir eru samt að velta því sérstaklega fyrir sér eða tala um það. En hvað með þær konur sem eiga engin börn – og velja að eignast ekki börn?

 

Þegar kona er barnlaus fær hún endalausar spurningar og athugasemdir varðandi barnleysið. Af hverju er það? Gift barnlaus kona þarf sífellt að verja það að hún eigi engin börn. Spurningar eins og hvenær eigi nú að fjölga mannkyninu eru algengar. Síðan dregur fólk þá ályktun að líklega geti þau hjónin ekki eignast börn og það hljóti að vera ástæðan. Ef kona er hins vegar einhleyp og barnlaus er sú ályktun dregin að hún hafi bara ekki enn hitt þann eina rétta. Konur sem eiga börn hafa áhyggjur af þeim barnlausu og finnst þær fara á mis við svo mikið í lífinu. Þær benda þeim á að þær hafi ekki hugmynd um hverju þær séu að missa af og að líklega geri þær sér enga grein fyrir því fyrr en þær eignist börn að þetta var einmitt það sem þær vantaði í lífinu. Í alvöru? Ef það er ekkert sem hvetur þig til að eignast barn af hverju ættirðu þá að gera það?

 

Staðreyndin er einfaldlega sú að það hafa ekki allar konur áhuga á því að verða mæður. Þær hafa hvorki löngun né áhuga á því að fæða barn í þennan heim. Og er það þá ekki bara í lagi? Kemur okkur hinum það eitthvað við? Einhvern veginn finnst fólki þetta samt ekki vera rétt – þetta passar ekki inn í samfélagið. Hvers vegna dæmum við konur sem velja annað en meirihluti okkar? Af hverju setjum við þessa pressu á aðrar konur? Þótt ég hafi haft bæði löngun og áhuga á að eignast börn get ég ekki gengið út frá því að næsta kona sé eins. Og þótt ég njóti þess að vera móðir get ég ekki gert ráð fyrir að svo sé um allar konur. Við ættum að fagna því að vera ekki allar eins og þó svo að mér þyki þetta yndisleg reynsla, sem ég hefði ekki viljað missa af, þá þýðir það ekki að móðurhlutverkið henti öllum.

 

Konur sem segja hreint út að þær vilji ekki eignast börn vekja undrun hjá öðrum og eru oft litnar hornauga af samfélaginu. Þær finna flestar fyrir mikilli pressu frá samfélaginu og ekki snægðar mæður. að það eru til  að eignast barn af hverju ættirðu þ r fara íður fólkinu í kringum sig og sumar hreinlega gefast upp á endanum og eignast barn þrátt fyrir enga löngun. Við vitum alveg að það eru til óánægðar mæður og er ekki ólíklegt að þær séu einmitt konur sem höfðu enga sérstaka löngun til að eignast börn. En gerðu það samt.

 

Leyfum þeim konum sem eru barnlausar að vera í friði með ákvörðun sína. Hættum að spyrja þær endalaust hvenær eigi nú að koma með eitt. Ég vil fá að vera í friði með mitt val í lífinu og vil ekki láta segja mér sí og æ hvernig ég eigi að lifa því. Það er fullt af öðrum hlutverkum í lífinu sem ég myndi persónulega ekki vilja vera í en hentar öðrum fullkomlega. Ég reikna með að ég sé þá stöðugt að fara á mis við eitthvað í lífinu. En það er í fínu lagi – enda er það mitt val!


Erum við of upptekin af hæð okkar?

Mér skilst að ég sé lágvaxin. Alla vega er mér reglulega bent á það. Ekki að ég hafi neitt sérstaklega verið að velta því fyrir mér í gegnum tíðina, því mér hefur yfirleitt liðið ágætlega í eigin skinni þrátt fyrir að vera ekki eins og barbídúkka í laginu. Auðvitað er maður ekkert alltaf ánægður með sig og hafa einhverjir smáhlutir pirrað mann aðeins annað slagið. En hæðin hefur samt einhvern veginn aldrei angrað mig.  

 

Hér áður fyrr fannst mér ég aldrei vera smá og velti hæð lítið sem ekkert fyrir mér. Enda hef ég alltaf litið á einstaklinginn sem eitthvað meira en hylkið sem við erum í og því horft á sjálfa mig út frá getu, hæfileikum og hjartalagi. Ætli ég hafi ekki verið komin yfir tvítugt þegar ég áttaði mig á því að margir voru töluvert hærri en ég. En meira að segja þá hugsaði ég það samt ekki þannig að ég væri lágvaxin. Það er ekki fyrr en núna í seinni tíð, þegar sífellt er verið að benda mér á það, að ég er farin að velta þessu aðeins fyrir mér.

 

Nú spyr kannski einhver hver sé svona hugulsamur að benda mér á það að ég sé lágvaxin. Eins vænt og mér þykir um vini mína þá verð ég víst að viðurkenna að það eru fyrst og fremst sumir þeirra sem eru svona elskulegir. Þetta þykir víst eitthvað fyndið og orð eins og hobbiti hefur m.a. verið notað í þessu gríni. En þetta er bara ekkert fyndið. Ekki frekar en þegar grínast er með það að þú sért hávaxinn, rauðhærður, feitur, mjór, með skalla, útstæð eyru, skakkt nef, krullað hár, stóra fætur, stór brjóst, lítil brjóst, stórt höfuð, lítið höfuð ... og áfram gæti ég talið. 

 

En ég hef líka velt því fyrir mér hvort það sé eitthvað verra að vera lágvaxin en hávaxin. Eru til að mynda einhverjir verulegir gallar við það að vera lágvaxin? Þegar ég fór að skoða þetta betur komst ég að eftirfarandi:

 

Að vera lágvaxin gefur manni krúttfaktor – mér finnst það alls ekkert slæmt.

Það er auðvelt að versla föt og ekkert mál að stytta og þrengja – en töluvert erfiðara ef maður er hávaxinn þar sem yfirleitt er ekki hægt að lengja og stækka.

Lágvaxnir passa vel í öll húsgögn og það fer vel um mann – sem er erfiðara ef maður er hávaxinn.

Rúm á hótelum passa fullkomlega – en eru oft of stutt fyrir hávaxna Íslendinga.

Að setjast inn í og keyra sportbíl er ekkert mál.

Flugvélasæti passa alveg ágætlega – mun erfiðara fyrir hávaxna.

Auðvelt að fara um í mannþröng og smeygja sér hér og þar.

Lítið mál að vera þar sem lágt er til lofts.

Lágvaxnir lifa líka lengur – og það er víst vísindalega sannað.

 

Það eru sem sagt ýmsir kostir við það að vera lágvaxin, enda hef ég ekki fundð fyrir öðru í lífinu. En hverjir eru þá ókostirnir?

 

Það getur verið ansi erfitt á standandi tónleikum – en fer þó eftir því hvar í heiminum maður er. 

Stundum erfitt að ná ekki upp í efstu hilluna í búðinni.

Og ...  nei, ég man bara ekki eftir neinu öðru!

 

Einhverra hluta vegna hefur orðið til nokkurs konar hæðardýrkun hjá okkur, svona líkt og ungæðisdýrkunin hér áður (sem ég vil trúa að nú sé liðin undir lok). Margir eru afar uppteknir af hæðinni og mikið er spáð í og talað um hæð eins og það þyki ákveðnir mannkostir að vera hávaxinn. Hvers konar vitleysa er það eiginlega? Ég meina; hæð er bara útlit. En kannski það sé einmitt málið! Við erum svo upptekin af útlitinu. Er þá upphefð hæðar nokkuð annað en hégómi í sinni skýrustu mynd?

 

Ég verð að segja að ég fæ ekki skilið hvers vegna hæð skiptir fólk svona miku máli. Er þetta ekki frekar sveitalegur og gamaldags hugsunarháttur? Skiptir til dæmis einhverju máli hvernig húð þín er á litinn? Og er eitthvað verra að vera svartur eða brúnn á hörund en fölbleikur? Ég bara spyr.

 

 



50 atriði sem hækka hamingjustuðulinn

Mér er hamingjan hugleikin og er mér því tíðrætt um hana í pistlum mínum.  Í mínum huga er hamingjan eitt það mikilvægasta í lífinu og merkilegt nokk þá er hún ekki alltaf nákvæmlega það sem við teljum að hún sé. Hamingjuna er nefnilega ekki hægt að kaupa, hana er ekki hægt að selja og þú getur ekki fengið hana að láni. Hamingjan er alfarið þín og hún sprettur úr þínum innstu hugarfylgsnum.

 

Þegar fólk hugsar um hamingjuna einblínir það yfirleitt á stóru hlutina og eyðir of miklum tíma í að bíða eftir að eitthvað gerist svo það geti orðið hamingjusamt. En á meðan beðið er fer fólk gjarnan á mis við hina raunverulegu hamingju. Þeir þættir sem gjarnan eru tengdir við það að öðlast hamingjuríkt líf eru markmið af ýmsum toga, frami, maki, nýtt hús og áfram mætti telja á þessa vegu. Segja má að margir leiti langt yfir skammt því að á meðan öll athyglin er á þessa stóru þætti gleymast allir smáu hlutirnir sem veita okkur hamingju og gleði, svo ekki sé nú talað um það að njóta þess að vera til og lifa í núinu.

 

Þessir litlu og að því virðist ómerkilegu hlutir skipta einfaldlega miklu meira máli en okkur grunar. Margt, ef ekki flest, af þessu er eitthvað sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Engu að síður eru það einmitt þessir litlu hlutir í lífi okkar sem eiga svo stóran þátt í því að gera okkur ánægð, vekja upp bros og hækka hamingjustuðulinn.  

 

Til að átta mig almennilega á því hverjir þessir litlu hlutir eru gerði ég lista með 50 atriðum sem eflaust margir geta verið sammála um að eigi þátt í því að hækka þeirra hamingjustuðul. 

 

1.  Að fylgjast með litlum börnum að leik.

2.  Lyktin af nýlöguðu kaffi – tilhugsunin ein er stundum nóg.

3.  Fallegt sólsetur.

4.  Falleg sólaruppkoma.

5.  Vingjarnlegt bros – eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

6.  Fuglasöngur – og allur annar fallegur söngur.

7.  Lyktin af uppáhaldsmatnum.

8.  Vorblóm, sumarblóm, afskorin blóm – og bara öll önnur blóm.

9.  Að fá einlægt hrós – og að hrósa öðrum af einlægni.

10. Að hlýða á uppáhaldstónlistina.

11. Uppáhaldslagið – sem þú spilar aftur og aftur af því það gerir þig glaða/n.

12. Að upplifa góðmennsku.

13. Góður göngutúr úti í náttúrunni.

14. Brakandi hrein og ný rúmföt.

15. Að kúra – að morgni, að kveldi eða bara hvenær sem er.

16. Að vakna og átta sig á því að maður má sofa lengur – afar notalegt!

17. Að gera góðverk – hjartað stækkar um eitt númer við það.

18. Horfa á hvolpa og/eða kettlinga að leik.

19. Fallegur sumarmorgunn með sól og logni – já takk!

20. Morgunsól – yndislegt að fara á fætur þegar sólin skín.

21. Strönd, sól og sandur – samt kannski ekki fyrir alla.

22. Að kunna fullkomlega textann að einhverju lagi þegar þú heyrir það spilað. 

23. Þegar einhver hleypir þér fram fyrir í röðinni – jú það gerist víst.

24. Uppáhaldsdrykkurinn og þegar þú tekur fyrsta sopann af honum.

25. Lyktin af nýslegnu grasi.

26. Lykt sem tengist æskunni og vekur upp góðar minningar – t.d. um ömmu og afa.

27. Að kveikja á sjónvarpinu og sjá að uppáhaldsmyndin er einmitt að byrja.

28. Finna pening í vasanum, eða annars staðar, sem þú hafðir gleymt – óvænt og skemmtilegt.

29. Að vakna eins og nýsleginn túskildingur og tilbúinn að taka daginn með trompi.

30. Hlutur sem tengist æskunni og vekur upp notalegar minningar.

31. Að eiga góðan hárdag – vekur alltaf upp gleði hjá mér.

32. Langt, gott og hlýtt faðmlag.

33. Heitt og gott bað – ekki verra að hafa kertaljós og góðan ilm.

34. Súkkulaðimolar – og reyndar bara allt súkkulaði.

35. Nýfallinn jólasnjór.

36. Alúðlegur og skemmtilegur afgreiðslumaður/kona – getur gjörbreytt innkaupaferðinni.

37. Sama notalega röddin í útvarpinu á hverjum morgni.

38. Stór og fallegur regnbogi.

39. Þegar einhver segist sakna þín.

40. Samvera með góðum vinum og góðum mat – klikkar ekki.

41. Þegar einhver verður rosa glaður að sjá þig – líka heimilishundurinn þegar þú kemur heim í lok dags.

42. Að prófa nýja uppskrift sem heppnast fullkomlega.

43. Söngur lóunnar – mér finnst fátt yndislegra.

44. Hnegg hrossagauksins – alveg dásemd.

45. Óvænt boð í eitthvað skemmtilegt.

46. Að rifja upp skemmtilegar minningar – enn betra að gera það með öðrum.

47. Að sitja við arineld.

48. Innilegur og góður hlátur.

49. Þegar einhver sýnir þér væntumþykju.

50.Að leika sér og njóta augnabliksins – kannski það mikilvægasta af þessu öllu.

 


Hrikalega erfitt að vera móðir

Þegar ég var ung, eða alla vega yngri en ég er í dag, var margt sem ég vissi ekki eða áttaði mig á, hvað þá að ég gerði mér grein fyrir hvernig allt gengi fyrir sig. Eitt af því var blessað móðurhlutverkið. Auðvitað gerði ég mér grein fyrir að þetta væri stórt og mikilvægt hlutverk en ekki óraði mig fyrir því hversu flókið það gæti líka verið.

 

Áður en ég eignaðist mitt fyrsta barn hafði ég meðal annars verið í krefjandi starfi sem krafðist allrar minnar athygli vakandi sem sofandi. Maður þurfti virkilega að vera á tánum til að verða ekki undir í baráttunni. Þetta var ekkert auðvelt – en skemmtilegt var það. Þegar ég hins vegar í daglegu tali minntist á það hversu mikið væri að gera og hve verkefnin virtust endalaus bentu flestar mæður mér á að þetta væri nú ekki neitt. Bíddu bara þar til þú eignast börn þá fyrst verður þetta erfitt, sögðu þær og glottu. Ég brosti nú bara út í annað við þessar ábendingar, enda hvað gæti svo sem verið erfitt við það að hugsa um barn? Það gat nú ekki verið jafn flókið og að vera í krefjandi starfi.

 

En maður minn hvað ég hafði rangt fyrir mér! Og þurfti ég heldur betur að kyngja því að þetta var sko ekki eins og ég hélt. Alls ekki!

 

En á þessu öllu áttaði ég mig þegar ég fór svo að fjölga mannkyninu. Ég fékk ungann minn, sem reyndar streittist á móti því að koma í heiminn, í fangið og lífið breyttist á einu augnabliki. Frá þeirri stundu var það hann sem skipti öllu máli og allt snerist um hann. Auðvitað var þetta allt, allt öðruvísi en ég hafði búist við. Barnið krafðist fullrar athygli minnar dag sem nótt og óvænt augnablik urðu að föstum liðum. Fyrir svona skipulagða konu eins og mig var hreint ekkert einfalt að laga sig að því. Eitthvað sem hét skipulag fauk út í veður og vind. Forgangsröðunin breyttist líka all skyndilega. Nú var ekkert hægt að dúlla við sjálfan sig og sat því útlitið á hakanum. Það sama má segja um tiltekt og þrif. Drasl og skítur fengu alveg nýja merkingu á þessum tíma og förðun dagsins fólst í rakakremi og varasalva. Og allur svona „prívat“ tími tilheyrði fortíðinni – maður fær ekki einu sinni að fara einn á klósettið. Vá, hvað það var hrikalega krefjandi að verða móðir og þetta starf býður heldur ekkert upp á það að maður útdeili verkefnum. Alla vega ekki á meðan maður gengur um með mjólkurbílinn framan á sér. 

 

En drengurinn var reyndar einstaklega skemmtilegt og kátt barn, sem gerði þetta allt auðveldara. Hann brosti og hló út í eitt – en ákveðinn var hann. Okkur foreldrunum fannst þetta eintak svo vel heppnað að ákveðið var að fjölga mannkyninu enn frekar. Tæpum 23 mánuðum seinna eignaðist því káti drengurinn bróður sem streittist ekki á móti því að koma í heiminn. En nú hófst líka ballið fyrir alvöru. Tvö börn undir tveggja ára aldri. Allar konur sem eiga fleiri en eitt ungt barn vita um hvað ég er að tala. Þarna var ég sko komin í alvöru verkefni. Hvað var ég eiginlega að hugsa?

 

Að vera móðir er svo sannarlega erfiðasta starf í heimi. Og nú brosa einhverjar ungar barnlausar konur út í annað. En trúið mér – þetta er alveg satt og rétt! Margar konur hafa t.d. sagt mér að þær geti alls ekki hugsað sér að vera heima með lítil börn og fari því sem allra fyrst út á vinnumarkaðinn aftur þar sem meira skipulag er á hlutunum. Ég man líka þegar ég var með mína litla þá var meira að segja tannlæknaheimsókn, sem ég öllu jöfnu þoli ekki, orðinn minn gæðatími. Svo ég tali nú ekki um þegar maður leyfði sér að fara í klippingu. 

 

En svo er líka annað í þessu og það er þegar börnin eldast. Ég hélt auðvitað að það yrði svo miklu einfaldara. Ó nei, ekki aldeilis! Það getur nefnilega verið ansi taugatrekkjandi að vera með unglinga í hormónarugli á heimilinu. Þá verður þetta svona öðruvísi erfitt og getur virkilega reynt á þolinmæðina. Það er alveg á kristaltæru að mitt mest krefjandi og erfiðasta starf og hluverk í lífinu er að vera móðir sona minna þriggja. En mikið rosalega er það líka gefandi og þroskandi – og oftast skemmtilegt. Já ég segi oftast því stundum er maður alveg búinn á því og vill bara fá að vera einhvers staðar einn í friði með sjálfum sér. Þá er líka um að gera að reyna eins og maður getur að taka sér tíma í það. Því einmitt þá áttar maður sig fljótt á því hversu gaman það er (oftast) að vera móðir.


Er ég þessi skrýtni Íslendingur?

Það er alveg að detta í sumar hjá okkur og júnímánuður rétt handan við hornið. Flestir eru búnir að leggja úlpunum og húfunum og komnir í eitthvað léttara. Stór, ef ekki stærsti, hluti þjóðarinnar bíður alltaf spenntur eftir þessum árstíma, og skyldi engan undra. Með hverjum deginum teygir dagsbirtan sig lengra og lengra inn í kvöldið. Allt verður svo miklu grænna, fallegra, skemmtilegra og auðvitað bjartara.

 

En fyrir svona manneskju eins og mig sem þarf að hafa jafnvægi í lífinu þá er þetta ekki endilega besti árstíminn. Ekki misskilja mig, mér finnst sumarið yndislegt og bíð spennt eftir því á hverju ári að losna við úlpuna, bomsurnar og hanskana. En íslensku sumri fylgir líka einn stór ókostur að mínu mati. Þetta er nefnilega árstíminn þar sem ég fæ ekki minn svefn. Og fyrir svona mikla svefnpurku þá getur þetta tímabil líka verið svolítið erfitt.

 

Skortur á svefni er strax farinn að segja til sín og sumarið varla byrjað. Þar sem ég sit og rita þessi orð er ég með bauga niður á hné og heilinn hálf dofinn af svefnleysi. Húðin er föl og augun tóm og starandi. Ástæðan fyrir svefnleysi mínu er auðvitað þessi blessaða birta. Ég á bara svo rosalega erfitt með að sofa þegar það er svona bjart. Þetta ruglar allt kerfið hjá mér og jafnvægið fer úr skorðum við þessar öfgar.

 

Þessa dagana vakna ég snemma á morgnana, og þá meina ég eldsnemma, og tekst yfirleitt ekki að sofna aftur. Auðvitað er gott að vakna snemma enda segir máltækið að morgunstund gefi gull í mund. Þetta væri líka alveg í fínu ef ég kæmi mér í rúmið á kvöldin. En NEI, þar liggur hundurinn einmitt grafinn. Með hverjum deginum fer ég nefnilega seinna og seinna að sofa. Ég kem mér einfaldlega ekki í háttinn á kvöldin af því það er svo bjart og þá er hægt að gera svo margt. Svo er líka næstum vonlaust að sofna þegar það er svona bjart.  Af hverju ætti ég líka að fara að sofa þegar sólin er ekki sest?

 

Það er svo gaman að vera til þegar allt er svona bjart – ekki satt? Alla vega alveg þar til maður „fúnkerar“ ekki lengur vegna svefnleysis. Nú hugsar líklega einhver; æ, góða hættu þessu væli og fáðu þér myrkratjöld. Já einmitt! Snilldarhugmynd! En málið er að ÉG ER MEÐ MYRKRATJÖLD. Það dugir bara ekki til. Kannski ég ætti að setja álpappír í gluggana eins og Kaninn gerði hér forðum uppi á Keflavíkurvelli.

 

Þessi yndislegi árstími þegar landið skartar sínu fegursta, fuglarnir syngja stanslaust, hitastigið sígur aðeins upp og sólin skín langt, langt fram á kvöld. Hvernig er annað hægt en að finnast þetta æðislegt? Ég get sagt ykkur það að eins mikið og ég heillast af björtum sumarnóttum þá bölva ég þeim um leið. Bjartar sumarnætur komast því seint á vinsældalistann minn og það sama má segja um dimma vetrardaga. Mér finnst þessir öfgar ekki góðir og þeir henta minni líkamsklukku illa.

 

Jájá, ég er sem sagt þessi skrýtni Íslendingur sem þolir ekki bjartar sumarnætur. Sumum finnst það hreinlega jaðra við föðurlandssvik að láta þetta út úr sér. Okkur á nefnilega öllum að finnast þessar björtu nætur æðislegar. En nei, mér finnst það ekki. Ég þarf nefnilega að fá minn svefn. Og er eitthvað skrýtið við það?


Konur hræðast að vera eigingjarnar

Ert þú þessi týpa sem lætur alltaf aðra ganga fyrir en situr svo sjálf á hakanum? Hugsar þú fyrst og fremst um þarfir annarra? Gerirðu ekki oft eitthvað sem þig langar ekki til og sleppir því sem þig virkilega langar til?

Er þetta kannski líf þitt í hnotskurn – að þóknast öðrum?

 

Þetta er alveg ótrúlega algengt hjá konum. Yfirleitt byrjar þessi hegðun um leið og konur stofna til fjölskyldu og börnin koma til sögunnar. Enda svo sem ósköp eðlilegt því lítil börn taka alla orku manns og tíma til að byrja með og þar af leiðandi verður enginn tími afgangs í eitthvað annað. Auk þess minnkar heimurinn aðeins hjá manni á þessum tíma og allt snýst meira og minna um fjölskylduna. En málið er að allt of margar konur festast einmitt þarna. Þær komast ekkert út úr þessum fjölskyldupakka og enda á því að týna pínulítið sjálfum sér.

 

Sumar konur lifa fyrir fjölskylduna sína og miða allar sínar athafnir meira og minna við aðra fjölskyldumeðlimi. Þetta gengur í ákveðinn tíma en það getur þó reynst erfitt að vinda ofan af áralangri fórnfýsi. Þegar börnin stækka og eldast er fullkomlega eðlilegt að konan fari smátt og smátt að gefa sjálfri sér meiri tíma og svigrúm. En hvers vegna gera margar konur það þá ekki? Í stað þess að hugsa vel um sjálfar sig halda þær áfram að ganga undir börnunum og öllum öðrum í fjölskyldunni þótt börnin þeirra séu ekki lengur börn heldur fullorðnir einstaklingar. Það hvarflar hreinlega ekki að konunni að snúa dæminu við og setja sjálfa sig í fyrsta sæti. Er hún virkilega búin að gleyma því að einu sinni var hún ein og þurfti ekki stöðugt að setja þarfir annarra ofar sínum eigin? Er svona rosalega erfitt að slíta þennan streng?

 

Vissulega er dýrmætt að eiga góða fjölskyldu en lífið er meira en fjölskyldan. Konur þurfa líka að lifa eigin lífi utan fjölskyldunnar því það gera bæði börnin og makinn svo sannarlega. Börnin eiga til dæmis sína vini og stunda sín áhugamál. Sumar konur eiga einmitt erfitt þegar börnin vaxa úr grasi og flytja að heiman. Þá beina þær oft allri sinni orku að barnabörnunum og sagan endurtekur sig. 

 

Getur verið að sumar konur séu svona háðar viðurkenningu sinna nánustu, eða jafnvel samfélagsins? Og með því að gera stöðugt öðrum til geðs þá öðlast þær þá viðurkenningu sem þær þarfnast. Þær verða fíklar viðurkenningarinnar en týna sjálfum sér um leið.   

 

Vissulega er móðurhlutverkið eitt af stærstu hlutverkum okkar í lífinu og því lýkur aldrei. En engu að síður er samt eðlilegt að áherslur breytist með aldrinum.  Í bók minni Frábær eftir fertugt bendi ég m.a. á að eitt það mikilvægasta sem hver kona getur gert fyrir sjálfa sig eftir fertugt sé að setja sjálfa sig í fyrsta sæti. Kannski finnst mörgum þetta hljóma eigingjarnt og eiga erfitt með að stíga þetta skref. En það að setja sjálfa sig í fyrsta sæti þýðir samt ekki að þú elskir ekki makann, börnin eða barnabörnin. Málið snýst einfaldlega um að nú er komið að þér að hugsa betur um sjálfa þig fyrir öll árin framundan. Það er kominn tími til að finna sig aftur og rifja upp hvað veitti þér gleði og ánægju í lífinu áður en börnin og  makinn komu inn í líf þitt.

 

Nú er kominn tími til að finna dansskóna, panta tíma í nudd, læra nýtt tungumál, labba á fjöll, fara í heimsreisu eða eitthvað annað sem þig hefur alltaf dreymt um. Og prófaðu næst þegar þú ferð erlendis að versla eingöngu á sjálfa þig en ekki börnin eða barnabörnin. Láttu þetta allt snúast um þig og hvað þú vilt gera – ekki hvað aðrir vilja!


Neyddist til að drekka grænan safa

Þeir sem þekkja mig vita hvað matur skiptir mig miklu máli. Ég elska að borða góðan mat og veit fátt betra en eyða tíma með góðu fólki við mat og drykk. En ég er líka ötull talsmaður þess að maður eigi að borða og tyggja matinn sinn en ekki drekka hann, nema auðvitað ef sjúkdómar og veikindi valda því að neyta þarf fæðu í fljótandi formi.

 

Í janúar ritaði ég pistil sem hét Enga græna safa takk! Þar sagði ég m.a. að ég ætti erfitt með að skilja þá sem kjósa að drekka matinn sinn og að þessir grænu safar minntu mig alltaf á þáttinn 70 mínútur og ógeðisdrykkina. Fyrir mér er það ákveðin athöfn að setjast niður og borða. Já mér finnst að maður eigi að borða og tyggja matinn. Matur er stór hluti af minni tilveru og í mínum huga eru matur og menning samofin. Enda finnst mér einstaklega gaman að prófa hina ýmsu rétti frá ólíkum heimsálfum. 

 

Þess vegna var það aldrei inni í mynd hjá mér að fá mér grænan safa. En þegar maður viðrar skoðanir sínar á Facebook og heitir jafnvel einhverju þar líka þá er sko fylgst með manni. Þetta hófst allt með Eurovision og Pollapönki. Ég ætla að vera alveg hreinskilin með það að ég kaus ekki þetta lag til þáttöku. Strákarnir eru alveg fínir en lagið fannst mér leiðinlegt og of mikil öskur fyrir minn smekk. Ég hafði því enga trú á þessu og lýsti því yfir á Facebook og hét því um leið að ég skyldi sko fá mér grænan safa ef þeir kæmust áfram. Svona viss var ég og hafði engar áhyggjur.

 

Á undanúrslitakvöldinu sat ég síðan eins og allt annað áhugafólk um Eurovision og fylgdist með keppninni. Þegar flytjendur númer fimm í röðinni höfðu lokið flutningi sínum runnu á mig tvær grímur. Öskrin voru miklu minni og þeir voru bara flottir á sviðinu í litríku jakkafötunum sínum. Gat það verið að þeir kæmust áfram. Nei, það gat bara ekki verið. Ég sannfærði síðan sjálfa mig um það meðan ég horfði á restina af lögunum.

 

Þá var komið að stigagjöfinni og þá var ég nú alveg viss um að ég væri sloppin. Alveg viss! En hvað gerist þá? Jú það sama og undanfarin ár, Ísland var síðasta landið sem kom upp úr pottinum. Í fyrstu vissi ég ekki hvort ég ætti að vera glöð eða fúl. En þar sem þjóðarstoltið er ávallt fyrir hendi þá varð ég auðvitað rosalega glöð að hafa haft svona rangt fyrir mér. Þó ég þoli reyndar ekki að hafa rangt fyrir mér. En allt fyrir Ísland.

 

Það eru engar ýkjur að segja að Facebook hafi logað hjá mér eftir klukkan níu síðasta þriðjudagskvöld. Vinirnir pössuðu vel upp á að minna mig á heitið. Ég ákvað að illu væri best af lokið og róaði alla með því að lofa að setja inn mynd. Nei, það var ekki nóg sögðu þá vinirnir. Myndband skyldi það vera svo þau gætu treyst því að ég hefði staðið við þetta.

 

Ég mætti því strax daginn eftir á góðan djússtað í höfuðborginni og pantaði mér einn grænan. Atburðurinn var síðan festur á filmu. Hjá mér hefur hins vegar ekkert breyst og segi ég enn „Enga græna safa takk!“

 

Áfram Ísland!

Kveðja,

Grænipolli

 

 

 

 

 


Fúl eða frábær eftir fertugt?

Vissir þú að fólk yfir fertugt er hamingjusamara en yngra fólk?

Alveg satt – það er vísindalega sannað! Þess vegna segja líklega margir að lífið hefjist fyrst eftir fertugt eða jafnvel fimmtugt.

 

Mér finnst þetta mjög áhugavert sérstaklega í ljósi þess að einhvers staðar á milli fertugs og sextugs eru flestar konur að ganga í gegnum breytingaskeið og tíðahvörf. Og konur á breytingaskeiði hafa lengi verið stimplaðar af samfélaginu sem leiðindakerlingar. Þess vegna voga fáar konur sér að nefna það opinberlega að þær séu á breytingaskeiði. Hver vill líka láta dæma sig leiðinlega og fúla?

 

Staðreyndin er nefnilega sú að konur á breytingaskeiði eru hvorki fúlar né leiðinlegar. Flestar eru þær hressar og skemmtilegar þrátt fyrir að ótal óþægindi hrjái þær á þessu tímabili. En auk þess eru líka velflestar konur á þessum aldri orðnar ákveðnari, með aukið sjálfstraust og vita hvað þær vilja. Þar liggur kannski hundurinn grafinn – konur á þessum aldri láta ekki bjóða sér hvað sem er svo það er ekki ólíklegt að breytt viðhorf þeirra og ákveðni séu túlkuð sem fúlmennska og frekja. 

 

Þrátt fyrir að konur yfir fertugt séu farnar að þekkja sjálfar sig og viti hvað þær vilja þá skal það alveg viðurkennt að þráðurinn hjá þeim á þessu tímabili getur stundum verið ansi stuttur. Þarf þá ekki mikið til að þær verði pirraðar eða jafnvel ofurviðkvæmar. Yfirleitt stendur þetta þó ekki lengi yfir í einu og koma skapsveiflurnar oft í gusum. Þess vegna er þessi neikvæða umræða um konur á breytingaskeiði alls ekki sanngjörn.

 

Við vinnslu bókar minnar Frábær eftir fertugt ræddi ég við fjölda kvenna um breytingaskeiðið en þar sagði einn viðmælandi minn m.a. „Ég er sko ekki á breytingaskeiðinu … þótt maðurinn minn haldi nú öðru fram. Ég verð bara reið þegar verið er að segja að ég sé komin á þetta tímabil. Maður vill ekkert fara á breytingaskeiðið og ég held að það sé út af þessum grýluáróðri í samfélaginu. Það er talað illa um konur á breytingaskeiði og við erum hræddar við þetta tímabil, enda ekkert skrýtið því það er svo innprentað í mann að þetta sé alveg hræðilegur tími.“

 

En er þetta virkilega svona hræðilegur tími?

Auðvitað ekki! Tímabilið sem slíkt er ekkert hræðilegt en fyrir sumar konur getur þetta vissulega verið erfiður tími þar sem eitt og annað bæði líkamlegt og andlegt þjakar þær. En það er samt ekki þar með sagt að þær séu leiðinlegar og fúlar – þeim líður bara ekki vel.

 

Við skulum líka alveg hafa það á hreinu að konur á breytingaskeiði eru með húmor og þær þola svo sannarlega grín, en fúlir breytingaskeiðsbrandarar eiga þó ekki upp á pallborðið hjá þessum þroskuðu konum. Þær eru alveg til í að hlegið sé með þeim en alls ekki að þeim.  

 

Breytingaskeið er tímabil sem markar tímamót í lífi kvenna og þess vegna er með ólíkindum hversu mikilli dulúð þetta tímabil hefur verið sveipað. Þegar ég hóf að afla heimilda fyrir bók mína fannst mér stundum eins og engin kona væri á breytingaskeiðinu. Flestar virtust fara í gegnum þetta tímabil í felum eða neituðu að viðurkenna að þær væru komnar á breytingaskeið. Neikvæð umræða og staðalmynd af sveittri pirraðri kerlingu eru líklegasta ástæðan fyrir því. Þvílík vitleysa! Hafið þið séð konur milli fertugs og sextugs í dag? Þetta eru konurnar sem eru í mörgum áhrifastöðum í íslensku samfélagi. Þetta eru flottar ákveðnar konur sem vita hvað þær vilja.

 

Nú er komið að því að við látum af þessum fordómum og hefjum umræðuna á hærra plan. Við konur þurfum að standa keikar og tala opinskátt um málið. Gerum það fyrir þær sem yngri eru því þær vita flestar ekki hvað bíður þeirra og hversu hamingjuríka tíma þær geta átt í vændum. Það er staðreynd að velflestar ungar konur velta breytingaskeiðinu ekki fyrir sér og halda innst inni að þær þurfi ekki ganga í gegnum þetta tímabil. En við sem eldri erum vitum betur – við vitum að það þurfa allar konur að ganga í gegnum þessar breytingar. Já ALLAR!


Ferlega erfitt að vera fallegur

Undanfarna daga hef ég dvalið í landi tækifæranna. Það er margt sem gerist í henni Ameríku sem ég hef gaman af að fylgjast með og oft reynist svo sannarlega ekki öll vitleysan vera eins. Eitt af því sem mér finnst skemmtilegt að sjá eru viðtöl við fræga fólkið. En það nýjasta sem vakti athygli mína var viðtal við hinn gullfallega Rob Lowe. Hver man annars ekki eftir þeim súkkulaðimola?

 

Leikarinn myndarlegi sem bræddi mörg hjörtun hér í „den“ hefur elst alveg einstaklega vel. Hann er sem sagt ennþá alveg fjallmyndarlegur – bara aðeins eldri. Augljóst að hann hefur gert eitthvað rétt um ævina eða að hann er svona einstaklega lánsamur með gen. En það er samt greinilega ekki tekið út með sældinni að vera svona fallegur og lánsamur. Elsku kallinn var nefnilega, í þessu viðtali, að kvarta yfir því hversu erfitt það getur verið að vera svona sætur.

 

Það er einmitt það! Hversu erfitt getur það verið að hafa útlitið svona með sér? Ég bara spyr. Það hlýtur að vera svakalegt álag. Ekki að ég hafi grænan grun um hvernig honum líður enda svo venjuleg að það jaðrar við að vera óvenjulegt.

 

Þess vegna er ekkert skrýtið að mér hafi fundist þessi yfirlýsing hjartaknúsarans fyndin og talið að um grín væri að ræða. Ég meina, hver kvartar yfir því að vera of fallegur? Í alvöru!

En Rob kallinn var sko bara alls ekkert að grínast. Svo er hann víst ekki sá eini sem hefur kvartað yfir of mikilli fegurð. Mér skilst nefnilega að leikkonan Jessica Biel hafi átt við sama vandamál að stríða en hún kennir fegurð sinni m.a. um skort á bitastæðum hlutverkum.

 

Súkkulaðimolinn okkar vill meina að það séu fordómar gagnvart fallegu fólki. Við fyrstu hugsun virðist þetta algjörlega fráleitt. Enda fólk sífellt að eltast við fegurðina og leggja margir töluvert á sig til að öðlast hana. Sumir leggjast meira að segja undir hnífinn til að verða fallegri. Og til hvers? Til þess að verða svo fyrir fordómum eins og Rob greyið.

 

Þegar ég fór hins vegar að velta þessum fullyrðingum hans alvarlega fyrir mér læddist að mér sá grunur að kannski væri heilmikið til í þessu hjá kappanum. Alls konar fordómar hrjá okkur, af hverju ekki líka fordómar gagnvart fallegu fólki? Eru sumir til dæmis ekki haldnir fordómum gagnvart ófríðu fólki?

 

Í viðtalinu benti Rob á að fallegt fólk væri almennt ekki talið hafa upplifað neitt erfitt um ævina. Allir teldu sem sagt lífið vera stanslausan dans á rósum hjá þeim fríðu. Hann sagði jafnframt þá skoðun almenna að fallegt fólk skorti alla dýpt og væri þar af leiðandi ekki áhugavert. Þetta er auðvitað það sama og að segja að fallegt fólk sé heimskt, ekki satt? Og enn einir fordómarnir gagnvart hinum fallegu væru að þeir þættu hreint ekkert fyndnir.

 

Eins og þið sjáið þá er greinilega ekkert grín að vera of fallegur. Við venjulega fólkið erum því þau heppnu. Við megum sko þakka fyrir að vera svona venjuleg og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að fegurðin þvælist fyrir okkur í lífinu. 


Kemur íslenska veðrið í veg fyrir hamingju okkar?

„Hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull“ sungu Ðe lónlí blú bojs hér um árið. Eflaust eru margir sammála því að hamingjan sé ekki allra. En er það virkilega svo að við getum ekki öll öðlast hamingju?

 

Eins og ég hef áður sagt þá er ég alveg óþolandi bjartsýn. Ég kýs að trúa því að allt sé mögulegt. Í texta sama lags segir einmitt líka „... en með viljastyrk verður veröldin full af hamingju“. Nákvæmlega! Það er vinna að vera hamingjusamur – hamingjan kemur ekkert á silfurfati til okkar.

 

Hamingjan er okkur mannfólkinu mikilvæg. En allt of oft gleymist að hamingjan er líka svo mikið undir okkur sjálfum komin. Þetta er val! Við erum sem sagt okkar eigin hamingjuvaldar. Að ætla að byggja sína eigin hamingju á öðrum gengur einfaldlega ekki upp. Aðrir geta vissulega látið okkur líða vel, og líka illa, en hamingjan veltur fyrst og fremst á okkur sjálfum. Þess vegna er alls ekki sanngjarnt að kenna öðrum um ef maður er ekki hamingjusamur.

 

Að kaupa nýjan rándýran flatskjá færir þér ekki hamingju, ekki heldur nýjir skór eða nýja flotta taskan frá Marc Jacobs, hvað þá nýjasti Apple síminn eða feitur bankareikningur. Allt eru þetta dauðir hlutir sem er kannski gaman og gott að eiga en þeir færa þér ekki hamingjuna. Líkamleg stærð, minni rass, stærri brjóst og stæltir magavöðvar færa þér ekki heldur hamingjuna. Allt þetta veit ég því ég er orðin svo þroskuð. Já, já, ég er víst að eldast og þá verður maður svo óskaplega vitur (bara svona ein af staðreyndum lífsins). En ekki nóg með að maður verði fullur af visku með árunum heldur telja fræðimenn það fullsannað að hamingja aukist með hærri aldri. Rannsókn frá árinu 2013 leiddi m.a. í ljós að eftir fertugt eykst hamingja fólks jafn og þétt. Ekk amalegt það!

 

En það er samt eitt sem rænir mig einstaka sinnum hamingjunni og það er íslenska veðrið. Ég veit þó fullvel að ég á ekki að láta veðrið hafa áhrif á hvernig mér líður en stundum ræð ég ekki við mig. Það gladdi því mitt litla hjarta að heyra að rannsóknir hafa leitt í ljós að augljós tengsl eru á milli þess að búa við milt veðurfar allan ársins hring, og sólarljós auðvitað, og þess að vera hamingjusamur. Gott að vita en erfiðara við að eiga þegar úti er myrkur, nístingskuldi og bleyta. Ekkert skrýtið að við séum stundum svolítið fúl hér á klakanum.

 

Þrátt fyrir að hamingjan skipti okkur miklu máli er ekki talið ráðlegt að eltast við hana. Stöðug leit að hamingjunni getur víst snúist upp í öndverðu sína. Hún kemur heldur ekki pökkuð inn í fallegar umbúðir því hana er alla að finna innra með okkur. Jákvætt hugarfar er mikilvægt til að öðlast hamingju og einnig að vera þakklátur og vænta ekki of mikils af lífinu. Allt eru þetta þættir sem hægt er að tileinka sér. Og það besta er að allir geta lært þetta alveg eins og allt annað sem við lærum og tileinkum okkur á lífsleiðinni.

 

Það er vinna að vera hamingjusamur og sumir þurfa að hafa aðeins meira fyrir því en aðrir þar sem erfðir skipa stóran þátt. En margir hafa líka tamið sér ákveðna hegðun og neikvæðni. Þá er ekkert annað að gera en að hugsa allt upp á nýtt og gera breytingar hjá sjálfum sér. Og er það ekki vel þess virði? Ég meina; hver vill ekki vera hamingjusamur? En til að öðlast hamingjuna er mikilvægt að vera vakandi fyrir eigin hegðun og hugsun – þetta krefst fullrar athygli okkar og mikillar þolinmæði. Miklu máli skiptir að hugur, hjarta og sál séu samtaka.

 

Lítum á jákvæðar hliðar lífsins og gefum okkur tíma til að lykta af blómunum. Já, gefum sjálfum okkur tíma. Hamingjan og ekki síður lífið sjálft krefst þess líka ansi oft að maður sé svolítil Pollýanna. Ég ætla að taka hana mér til fyrirmyndar næst þegar myrkrið, rokið og kuldinn er að gera út af við mig. Það er sko margt erfiðara í lífinu en leiðinlegt veður. Svo styttist líka í sumarið og þá verða allir svo glaðir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband