Neyddist til að drekka grænan safa

Þeir sem þekkja mig vita hvað matur skiptir mig miklu máli. Ég elska að borða góðan mat og veit fátt betra en eyða tíma með góðu fólki við mat og drykk. En ég er líka ötull talsmaður þess að maður eigi að borða og tyggja matinn sinn en ekki drekka hann, nema auðvitað ef sjúkdómar og veikindi valda því að neyta þarf fæðu í fljótandi formi.

 

Í janúar ritaði ég pistil sem hét Enga græna safa takk! Þar sagði ég m.a. að ég ætti erfitt með að skilja þá sem kjósa að drekka matinn sinn og að þessir grænu safar minntu mig alltaf á þáttinn 70 mínútur og ógeðisdrykkina. Fyrir mér er það ákveðin athöfn að setjast niður og borða. Já mér finnst að maður eigi að borða og tyggja matinn. Matur er stór hluti af minni tilveru og í mínum huga eru matur og menning samofin. Enda finnst mér einstaklega gaman að prófa hina ýmsu rétti frá ólíkum heimsálfum. 

 

Þess vegna var það aldrei inni í mynd hjá mér að fá mér grænan safa. En þegar maður viðrar skoðanir sínar á Facebook og heitir jafnvel einhverju þar líka þá er sko fylgst með manni. Þetta hófst allt með Eurovision og Pollapönki. Ég ætla að vera alveg hreinskilin með það að ég kaus ekki þetta lag til þáttöku. Strákarnir eru alveg fínir en lagið fannst mér leiðinlegt og of mikil öskur fyrir minn smekk. Ég hafði því enga trú á þessu og lýsti því yfir á Facebook og hét því um leið að ég skyldi sko fá mér grænan safa ef þeir kæmust áfram. Svona viss var ég og hafði engar áhyggjur.

 

Á undanúrslitakvöldinu sat ég síðan eins og allt annað áhugafólk um Eurovision og fylgdist með keppninni. Þegar flytjendur númer fimm í röðinni höfðu lokið flutningi sínum runnu á mig tvær grímur. Öskrin voru miklu minni og þeir voru bara flottir á sviðinu í litríku jakkafötunum sínum. Gat það verið að þeir kæmust áfram. Nei, það gat bara ekki verið. Ég sannfærði síðan sjálfa mig um það meðan ég horfði á restina af lögunum.

 

Þá var komið að stigagjöfinni og þá var ég nú alveg viss um að ég væri sloppin. Alveg viss! En hvað gerist þá? Jú það sama og undanfarin ár, Ísland var síðasta landið sem kom upp úr pottinum. Í fyrstu vissi ég ekki hvort ég ætti að vera glöð eða fúl. En þar sem þjóðarstoltið er ávallt fyrir hendi þá varð ég auðvitað rosalega glöð að hafa haft svona rangt fyrir mér. Þó ég þoli reyndar ekki að hafa rangt fyrir mér. En allt fyrir Ísland.

 

Það eru engar ýkjur að segja að Facebook hafi logað hjá mér eftir klukkan níu síðasta þriðjudagskvöld. Vinirnir pössuðu vel upp á að minna mig á heitið. Ég ákvað að illu væri best af lokið og róaði alla með því að lofa að setja inn mynd. Nei, það var ekki nóg sögðu þá vinirnir. Myndband skyldi það vera svo þau gætu treyst því að ég hefði staðið við þetta.

 

Ég mætti því strax daginn eftir á góðan djússtað í höfuðborginni og pantaði mér einn grænan. Atburðurinn var síðan festur á filmu. Hjá mér hefur hins vegar ekkert breyst og segi ég enn „Enga græna safa takk!“

 

Áfram Ísland!

Kveðja,

Grænipolli

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband