Hjartað stækkar um þrjú númer

Alveg er það merkilegt hvað manni finnst sumt ómissandi fyrir jól og hátíðir. Það getur verið ákveðinn matur, skraut, lykt, tónlist, athöfn og þar fram eftir götunum. Hjá mér var það á tímabili rödd Valdísar heitinnar Gunnarsdóttur í útvarpinu. Að heyra notalega rödd hennar, fallegar hugleiðingar og svo auðvitað öll jólalögin, sem enginn nema hún spilaði á þessum tíma, kom mér alltaf í jólaskap. Það var því erfitt þegar ég flutti erlendis í nokkur ár þar sem engin Valdís var í útvarpinu til að skapa réttu stemninguna. Þarf varla að taka það fram að þetta var fyrir þann tíma að hægt væri að hlusta á útvarpið á netinu. En ég dó ekki ráðalaus og var mamma sett í það verkefni að taka nokkra þætti upp á kassettu og senda mér út. Og jólaskapinu var bjargað með Valdísi í tækinu.

 

Mér varð einmitt hugsað til þessa, síðastliðna helgi, þegar ég las viðtal við tvítugan son Valdísar. Tárin spruttu fram hjá mér við að lesa það sem þessi ungi drengur hafði fram að færa. Mikill þroski sem hann hefur öðlast við þá dýru og erfiðu lífsreynslu að missa móður. Og þótt hann vissulega syrgi þá segist hann strax hafa tekið þá ákvörðun að lifa ekki lífinu í sorg. Í stað þess að vera bitur er hann þakklátur fyrir þann góða tíma sem þau mæðginin áttu saman. Hann minnir fólk á að vera þakklátt fyrir það sem það hefur í lífinu því hlutirnir geti auðveldlega breyst á einu augnabliki. Líkt og gerðist hjá móður hans. Afar þörf áminning því við vitum nefnilega aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Því er svo mikilvægt að vera þakklátur og ánægður með það sem maður hefur í stað þess að einblína á það sem maður hefur ekki.

 

Núna fyrir jólin þegar þjóðin keppist við að gera allt „fullkomið“ fyrir hátíðina gleymist stundum að næra hjartað. Það er vissulega dyggð að vera þakklátur eins og þessi ungi drengur hefur lært. Margir þeir sem eldri eru mættu taka hann sér til fyrirmyndar. Kvart og kvein skilar aldrei neinu og sama hversu bágt manni finnst maður eiga þá er alltaf einhver einhvers staðar sem á meira bágt en maður sjálfur. Og samt leyfir maður sér að kvarta yfir hlutum sem skipta engu máli – nákvæmlega engu máli þegar upp er staðið!

 

Jólin eru svo sannarlega tími kærleikans og margt er hægt að gera til að rækta hann. Með því að gera öðrum gott gerir maður um leið sjálfum sér gott. Það er nú bara þannig að hjartað stækkar hjá sumum á þessum árstíma. Munið þið ekki eftir honum „Grinch“ (þegar Trölli stal jólunum)? Þegar hann áttaði sig á því að jólin snerust ekki um alla þessa pakka heldur það að þakka. Og þann dag stækkaði hjarta hans um heil þrjú númer. Um þetta snúast einmitt jólin, að fá hjartað til að stækka og kærleikann til að blómstra. Kærleika má sýna á ýmsa vegu og málið er að oft þarf hreint ekki mikið til. Sumir geta gefið af sér fjárhagslega, aðrir geta gefið af tíma sínum og enn aðrir veitt andlegan stuðning. Allt skiptir þetta jafnmiklu máli.

 

Hér eru nokkur atriði sem eru vel til þess fallin að hjálpa og gleðja einhverja nú fyrir jólin – og um leið næra okkar eigið hjarta:

 

1.  Veittu eldri einstaklingum samfélagsins athygli og aðstoð við jólaundirbúninginn

2.  Brostu vingjarnlega til allra þeirra sem hlaupa um úttaugaðir fyrir jólin.

3.  Fylltu aukapoka í matvörubúðinni til að gefa inni á síðunni matargjafir á facebook.

4.  Heimsæktu ömmu, afa, langömmu, langafa, langalangömmu, langalangafa ...

5.  Sýndu öllum sjálfsagða kurteisi og velvilja.

6.  Settu pakka undir jólatréð í Smáralind.

7.  Leyfðu þeim sem er með einn (tvo eða þrjá ...) hluti að fara fram fyrir þig í röðinni í matvörubúðinni.

8.  Gefðu af tíma þínum til Mæðrastyrksnefndar, Fjölskylduhjálpar Íslands eða Hjálparstofnunar kirkjunnar – sem allar eru með matarúthlutanir fyrir jólin.

9.  Kíktu í fataskápana og athugaðu hvort þar leynist ekki eitthvað sem þú notar aldrei en einhver annar gæti vel nýtt sér.

10. Gefðu þér raunverulega tíma til að hlusta á einhvern sem þarfnast þess að tala.

11. Haltu hurðinni fyrir náungann.

12. Gefðu „séns“ í umferðinni og hleyptu öðrum bílum inn í.

13. Knúsaðu, knúsaðu og knúsaðu.

14. Gefðu einhverjum eftir bílastæðið þitt, og finndu þér annað stæði.

15. Segðu einhverjum (eða öllum) hvað þér þykir vænt um hann.

16. Gefðu blóð í Blóðbankann.

17. Heimsæktu þann sem þú veist að er einmana, eða bjóddu honum/henni heim.

18. Hrósaðu og sláðu fólki gullhamra – það verður samt að koma frá hjartanu.

19. Hlúðu að þeim sem er veikur.

20. Gefðu fjármuni til hjálparsamtaka sem styðja við þá sem minna mega sín.

21. Bakaðu smákökur og/eða köku fyrir einhvern sem er ekki fær um það.

22. Keyptu gjafakortin „Gjöf sem gefur“ hjá Hjálparstofnun Kirkjunnar.

23. Þakkaðu afgreiðslufólki, sem veitir þér góða þjónustu, fyrir með bros á vör og láttu vita að þú sért ánægð/ur með þjónustuna.

 

Með einlægri ósk um að við verðum aftur hamingjusamasta þjóð í heimi og með eitt stærsta hjarta heimsbyggðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband