Nennir þú jólunum?

Ertu búin að öllu fyrir jólin? Hver hefur ekki fengið þessa spurningu? Hún heyrist nefnilega ansi oft í desember og reyndar enn oftar því sem nær dregur jólum. Þetta liggur þarna í loftinu og bergmálar í hausnum á okkur aftur og aftur. Margar konur stressast upp við þetta og finna að þær eru ekki næstum því búnar að „öllu“ og setja þá í fimmta gírinn og hamast við að reyna að klára þetta „allt“. Sem endar auðvitað bara með því að þær verða dauðþreyttar, útkeyrðar, jafnvel daprar og salta að lokum jólamatinn með tárum sínum.

 

En hvað er þetta „allt“? Og þurfum við virkilega að gera þetta „allt“. Kannski er ég bara svona vitlaus en ég er ekki alveg með á hreinu hvað þetta „allt“ er. Eða kannski er ég svona yfirmáta kærulaus. Hvort heldur sem er þá hef ég oft velt því fyrir mér hvaða „allt“ ég á að gera fyrir jólin. Er ég að missa af einhverju mikilvægu? Koma jólin ekki til mín ef ég er ekki búin að gera „allt“?

 

Gömul vinkona mín, sem er ekkert að missa sig yfir þessu „öllu“, sagðist í fyrra bara alls ekki nenna þessum jólum. Engu að síður velti hún því fyrir sér hvort hún ætti að fara í geymsluna sína og sækja eitthvað jólaskraut til að skreyta heimilið. Ekki af því hana langaði til þess heldur af því henni fannst hún þurfa þess þar sem allir aðrir væru að skreyta hátt og lágt. Jólabarnið ég átti erfitt með að skilja þetta. Hvernig er það hægt að nenna ekki jólunum? Þá getur maður alveg eins ekki nennt því að eiga afmæli eða ekki nennt sumrinu. En þegar hún lýsti því hvernig henni fyndist jólin vera eitt stórt kapphlaup þá áttaði ég mig á því hvað hún var að fara. Hennar tilfinning er sú að fólk sé fyrst og fremst að keppast við að gefa stærstu gjafirnar, kaupa ný og dýr föt á alla fjölskylduna og bruðla við matarkaup því allt þarf að vera svo fullkomið. Þetta er virkilega umhugsunarvert og afar leitt ef mörgum líður þannig. Jólin eiga ekki að snúast um þessa hluti.

 

En eru dýr gjafakaup, nýr alklæðnaður og bruðl í matarkaupum þá „allt“ sem þarf að gera fyrir jólin? Nei svo er víst alls ekki því mér skilst að það sé töluvert meira á „allt-listanum“. Það þarf til dæmis að baka alla vega nokkrar sortir af smákökum, skreyta heimilið að utan sem innan hátt og lágt, skúra út í öll horn, taka alla skápa í gegn, þrífa gardínurnar, föndra eitthvað sniðugt og flott og svo má ekki gleyma að skrifa nokkra tugi jólakorta. Er þetta þá „allt“? Reyndar ekki því æði mörgum finnst engin jól án þess að standa í konfektgerð, kæfugerð, rauðkálsgerð, laufabrauðsgerð og svo þarf að fara út í skóg og höggva sitt eigið jólatré.

 

Ég er samt ekki einu sinni viss um að þetta sé „allt“ og sumum finnst þeir eflaust þurfa að gera eitthvað enn meira svo jólin verði nú örugglega fullkomin. Ég viðurkenni það alveg fúslega að mér fallast hreinlega hendur við að lesa þennan lista. Alveg efast ég stórlega um það að ég kæmist heil út úr því að framkvæma þetta „allt“ á einum mánuði. Af hverju þarf að gera svona mikið fyrir jólin? Og getur maður treyst því að allt verði fullkomið?

 

Hvort það er heimskan í mér eða margra, margra ára reynsla af jólaundirbúningi þá finnst mér ég ekki þurfa að gera þetta „allt“. Og ég átta mig enn betur á því þegar ég les yfir þennan lista. Sem betur fer er ég líka með nokkuð háan skítastuðul, sem þýðir að ég fer sko ekkert á taugum þó ég sjái örlítið ryk eða smá skít. Það er líka hvort eð er alltaf svo mikið myrkur í jólamánuðinum að það sér enginn neitt. Þannig að það er um að gera að skrúfa bara niður í ljósunum og nota kerti og jólaljós til að gera heimilið huggulegt. Þá tekur enginn eftir neinu nema notalegri stemningu og kósíheitum. Ég lofa!

 

Ég ætla samt að viðurkenna það að vissulega geri ég eitt og annað á þessum langa lista en ég geri það allt á mínum forsendum, sem þýðir að ég geri það ef mig langar, ef ég nenni og ef ég hef tíma. Ég er löngu vaxin upp úr því að finnast allt þurfa að vera fullkomið því reynslan hefur kennt mér að það er ansi fátt í lífinu sem er fullkomið. Lífið er oftast yndislegt og gjöf í sjálfu sér, en lífið er líka fullt af óvæntum uppákomum sem geta breytt ýmsu eða jafnvel öllu.

 

Aðventan er yndislegur tími og ég veit fátt skemmtilegra en að nota hann til að vera með fjölskyldunni minni og hitta vini á tónleikum eða kaffihúsum við kertaljós. Það er svo miklu betra en að rembast við að uppfylla einhverjar kröfur samfélagsins eða tilbúnar væntingar. Ég get svo svarið það að skíturinn fer ekki neitt þó þið farið út og hittið fólk, og reynsla mín af því að halda jól erlendis hefur kennt mér að jólin koma hvort sem maður tekur íslensku leiðina á þau eða ekki. Þau koma hvort sem maður tekur skápana í gegn eða ekki. Þau koma meira að segja þó maður baki ekkert og fái sér ekki nýjan kjól. Jólin eru tími kærleikans og mér finnst stórkostlegt að sjá og finna hvað ólíklegasta fólk verður kærleiksríkt á þessum árstíma.  Njótum þess nú að vera til og eyða tíma með þeim sem okkur þykir vænt um og höldum jólin eins og okkur hentar. Það getur verið á allt annan hátt en hjá fólkinu í næsta húsi. Og ég vona svo innilega að um þessi jól gráti engin kona yfir pottunum á aðfangadag af því hún náði ekki að gera „allt“ fyrir jólin.

 

Ég veit að jólin munu koma til mín því ég er tilbúin í hjarta mínu að taka á móti þeim þó öll ytri umgjörð verði ekki fullkomin, hvað þá samkvæmt listanum góða. Bara svona eins og venjulega hjá mér – enda geri ég aldrei „allt“ fyrir jólin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband